Skýrsla bæjarstjóra 21/10-3/11/2020

Frá Akureyri. Brekkuskóli séður úr lofti.
Frá Akureyri. Brekkuskóli séður úr lofti.

Í lok hvers bæjarstjórnarfundar fer bæjarstjóri yfir helstu verkefni hverju sinni.

Efni skýrslunnar getur tekið breytingum í flutningi. Flutt á fundi bæjarstjórnar 3. nóvember 2020.

Þriðjudaginn 20. október hóf ég fundatörn þar sem fór fram tveggja manna tal við hvern og einn sviðsstjóra á hálftíma löngum fundum um vinnuna við gerð fjárhagsáætlunar. Þetta eru mikilvægir fundir þar sem rýnt er í stöðuna á erfiðum tímum og engum blöðum um það að fletta að á öllum sviðum sveitarfélagsins er staðan snúin og í mörg horn á líta þegar kórónuveiran þyngir róðurinn svo um munar. Þarf vart að taka það fram að allir fundir mínir þessa dagana - fjölmennir sem fámennir - eru fjarfundir.

Í þarsíðustu viku átti ég einnig fundi með fyrirtækjaeigendum, þar á meðal framkvæmdastjóra Ásprents og rekstraraðilum Skjaldarvíkur. Það er deginum ljósara að það kreppir að hjá öllum, í mismiklum mæli þó, og þetta er bara spurning um að setja undir sig hausinn og þreyja þorrann.

Miðvikudaginn 21. október var stór fundur hjá Arctic Mayors Forum þar sem rætt var um félags- og efnahagsleg áhrif Covid-19 á rekstur sveitarfélaga og það var einnig umfjöllunarefni mitt í erindi sem ég hélt daginn eftir, fimmtudaginn 22. október, á málstofu Viðskiptadeildar Háskólans á Akureyri.

Aðalfundur Menningarfélagsins Hofs ses. var haldinn í hádeginu fimmtudaginn 22. október og föstudaginn 23. október sat ég fund SSNE með sveitarstjórum þar sem var meðal annars kynnt og rætt um rannsókn sem Háskólinn á Akureyri hefur gert um áhrif samgangna á byggða- og íbúaþróun.

Miðvikudaginn 28. október fundaði bæjarstjórn með Kristrúnu Frostadóttur, aðalhagfræðingi Kviku banka, um fjármál sveitarfélaga og fimmtudaginn 29. október fengum við nokkrar mínútur á fjarfundi með þingmönnum Norðausturkjördæmis þegar hin svokallaða kjördæmavika var haldin. Þá um kvöldið var síðan haldinn aðalfundur Menningarfélagsins ses.

Um liðna helgi var unnið með fræðslustjóra Akureyrarbæjar við skipulagningu skólastarfsins þessa vikuna og hvernig unnt væri að halda því úti með sem bestum hætti í bæði leik- og grunnskólum.

Gærdagurinn 1. nóvember var þétt skipaður af fundum um ýmis málefni og má þar kannski helst nefna fund um þar sem rýnt var í samninga um byggingu nýs hjúkrunarheimilis við Lögmannshlíð.

Fastir liðir þessar vikurnar eru vinnufundir með bæjarstjórn vegna fjárhagsáætlunar, stöðufundir með sviðsstjórum, kynningarteymi og bæjarstjórn vegna Covid-19, fundir í samráðshópi um almannaheill íbúa Akureyrar, og fundir með aðgerðarstjórn Almannavarna Eyjafjarðar og lögreglunnar vegna kórónuveirunnar, stöðunnar á útbreiðslu smita og nauðsynlegra aðgerða þeirra vegna.