Skýrsla bæjarstjóra 16/9-6/10/2020

Haust á Akureyri.
Haust á Akureyri.

Í lok hvers bæjarstjórnarfundar fer bæjarstjóri yfir helstu verkefni hverju sinni.

Efni skýrslunnar getur tekið breytingum í flutningi. Flutt á fundi bæjarstjórnar 6. október 2020.

Vinna við fjárhagsáætlun stendur sem hæst og óðum líður að því að áætlunin verði tekin til fyrri umræðu hér í bæjarstjórn. Við þessa vinnu höfum við notið leiðsagnar ráðgjafafyrirtækisins Strategíu og munar að mínu mati miklu um það skipulag og þá sýn sem ráðgjafarnir hafa á þetta viðamikla verkefni.

Frá síðasta bæjarstjórnarfundi höfum við átt nokkra krefjandi fundi með heilbrigðisráðuneytinu vegna flutnings öldrunarheimilanna yfir til HSN. Þótt vel gangi þá verður að segjast að þetta eru af ýmsum ástæðum mjög flóknar samningaviðræður og það er ekki mikill tími til stefnu.

Nokkra daga um miðjan september átti Guðmundur Jósepsson, ráðgjafi um upplýsingatæknimál, samtal við stjórnendur og starfsfólk Akureyrarbæjar um þau margvíslegu kerfi sem notuð eru hér og þar í bæjarkerfinu. Það er mikilvægt að við skerpum fókusinn hjá okkur á þessu sviði og mörkum okkur skýra stefnu. Akureyri á að vera leiðandi á sviði upplýsingatækni og stafrænna lausna - til lengri tíma litið er það bæði hagkvæmt og skynsamlegt.

Þriðjudaginn 29. september var ætlunin að taka þátt í netráðstefnu á vegum Northern Forum þar sem meðal annars skyldi rætt um sjálfbæra þróun og stöðu kvenna á norðurslóðum - en því miður urðu Rússarnir fyrir tölvuárás og því fór umræðan öll meira og minna í handaskolum. Það gengur bara betur næst.

Miðvikudaginn 30. september var undirritaður nýr samningur við Vodafone um alla símaþjónustu hjá sveitarfélaginu og er ánægjulegt að greina frá því að kostnaður af þessum samningi er umtalsvert lægri en áður var.

Fjármálaráðstefna Sambands íslenskra sveitarfélaga fór fram 1. og 2. október og þar flutti ég á föstudeginum erindi um breytta starfshætti sveitarfélaga í stafrænu umhverfi framtíðar og þá hröðu þróun sem orðið hefur á stafsháttum okkar í kjölfar Covid-19 heimsfaraldursins.