UNG SKÁLD AK 2013 - Úrslit

Í nóvember var haldin ritlistarsamkeppnin UNG SKÁLD AK 2013 - Alls bárust 39 verk í samkeppnina og við birtum hér flest þeirra með góðfúslegu leyfi höfunda.

UNG SKÁLD AK 2013 er samvinnuverkefni Akureyrarstofu, Amtsbókasafnsins, Hússins upplýsinga- og menningarmiðstöðvar, Verkmenntaskólans á Akureyri og Menntaskólans á Akureyri og er styrkt af Menningarráði Eyþings.

Það var niðurstaða dómnefndar að deila þriðja og fjórða sætinu milli þeirra Borgnýjar Finnsdóttur fyrir smásöguna Sársaukinn og Emblu Orradóttur fyrir ljóðið Dyr. Í öðru sæti var Kristófer Páll Viðarsson með smásöguna Gæs og í fyrsta sæti var Agnes Ársælsdóttir með ljóðið Ævintýraþrá og fær hún 50 þúsund krónur í verðlaun en auk þess fengu allir viðurkenningarhafa bókaverðlaun.

Í umsögn dómnefndar um ljóð Agnesar segir:

Ljóð sem blandar á skemmtilegan hátt saman hefðbundnum þáttum og frjálsari prósa og etur um leið saman sorglegu efni sínu og fjörlegri hrynjandi svo úr verður hálfgerð öfugmælavísa, sem er svo undirstrikað frekar með óvæntum viðsnúningi í lokin þannig að lesandinn getur vart varist því að brosa að innihaldsleysi eigin hversdagsleika.

Ævintýraþrá
eftir Agnesi Ársælsdóttur.

Keyrum fram af klettunum!
Segir konan sem hræðist ekki neitt.
Maðurinn sem hún elskar situr undir stýri
og starir tómum augum fram á veginn.

Keyrum fram af klettunum,
kljúfum hörund hafsins.
Svömlum saman í eilífð þess.
Syndum okkar gleymum.
Þreyttum þrám ég sökkva skal,
svala gömlum þorsta.
Leggjumst dalinn djúpa í,
sofum dúrinn langa.

Maðurinn glottir og gefur í,
konan gólar áfram:

Keyrum fram af klettunum,
kaffærum okkar vonum.
Brimið dæmir ei dauða menn,
drekkir aðeins gráti
Vilt' ekki vagga með öldunum,
af salti fylla vit?
Ó, hvað það verður yndislegt
að finna loksins til!

Nú nálgast þau óðar sylluna,
maðurinn er á nálum.
Enn þá kyrjar konan hátt.

Keyrum fram af klettunum,
klárum lífsins leiða.
Dagsins amstur úr sögu er,
stritum ekki lengur.
Þorum saman þú og ég,
þankar okkar hverfa.
Djúpan drögum andann er
dagar allir teljast.

Þá er komið að því.
Æðar mannsins þenjast út.
Hann hikar augnablik á brúninni
en konan sönglar hærra.

Keyrum fram af klettunum!
Eða nei annars,
er ekki nýr criminal minds á rúv í kvöld?


Gæs

Eftir Kristófer Pál Viðarsson

Þröstur andvarpaði með augun lygnd aftur og reyndi með herkjum að sitja uppréttur. Hann sat hokinn og starði dæsandi í hálfum hljóðum niður á parketið. Fyrir það fyrsta hafði hann ekki langað út úr húsi þetta kvöldið því ónotakenndin fylgdi honum líkt og skugginn á björtum sumardegi, auk vaktarinnar sem beið hans næsta dag í leikfangadeild Hagkaupa í Kringlunni. Klukkustundum saman þurfti hann að þvinga fram bros og sviðsetja glaðværð sem ekki hafði verið til staðar svo árum skipti. Til að bæta gráu ofan á svart drógu þau hann í teitið, Elínborg kærastan hans og Hlöðver, eini náni vinur hans, og gufuðu svo bæði upp með afar dularfullum hætti. Þröstur særði fram grímu sem huldi armæðuna sem þreifst við allsnægtir á hans innra þeli, innan um kunningja úr fjarlægri fortíð og ókunnugan félagskap. Þröstur vissi mætavel að hann hefði betur haldið sig heima fyrir. Hann hefði þessvegna betur rennt músarhjólinu upp og niður á tilbreytingarlausu viðmóti smettisskruddunnar þar sem gömul bekkjarsystkini, fjarskyldir ættingjar og fólk sem hann kannaðist lítið sem ekkert við sendir inn innihaldslaust þvaður um þeirra lítilvægilega líf. Þröstur úrskurðaði þó ekki um ágæti þeirra og forkunn sem eyða langþráðum frítíma sínum á smettisskruddunni, ýmist til að bera sig saman við aðra í því skyni að vinna í eigin sjálfsöryggi, vera með fíflalæti eða upplýsa fólk um ósýnilegt þrælahald samfélagsins í umráði stórfyrirtækja og ríkisstjórna. Allir sitja á rassgatinu fyrir framan skjáinn og deyja að lokum. Hann var sjálfur alveg jafn týndur í deyfðri mergðinni og líkt öllum öðrum flaut hann smávægilega um öngstræti brotsjávarins. Eftirlætis hugðarefni Þrastar voru netleikir þar sem hann gat verið þýðingarmikil lífvera í stórbrotnum ævintýrum þar sem brostnir draumar tilheyrðu aðeins bláköldum raunveruleikanum. Best hefði Þresti þó liðið að svo stöddu í rúminu þar sem hann hafði grátið reglulega í hverri viku, í hverjum mánuði síðastliðin ár. Nú var sælureiturinn í órafjarlægð og Þresti öll sund lokuð. Samræðurnar í kringum hann breyttust í fjarlægar drunur. Honum var ofarlega í huga hve heimskulegt það hafi verið að kúka ekki áður en hann beindi för sinni um gleðinnar dyr. Hann vissi upp á sig sökina og bölvaði sjálfum sér í sand og ösku fyrir að hafa kýlt í fötu með grashausunum sem buðu honum að kostnaðarlausu að krydda upp á tilveruna. Þröstur hafði nokkrum sinnum reykt kannabis áður og skemmt sér konunglega, en skunkurinn sem honum var boðið að þessu sinni var allt of sterkur fyrir horaðan slána á sjöunda bjór. Veröldin í kringum hann varð að móðukenndum grátónum einum saman á meðan Þröstur reyndi að standa hversdagslega upp til að komast á salernið. Hann fann hvernig hin vægðarlausa ógn sem hann hafði aðeins heyrt getið til um í svæsnustu djammsögum breiddi út faðm sinn. Með hverjum hægfara andardrættinum var honum deginum ljósara að hann var á sjálfri hvítunni. Veruleikinn tók að hiksta líkt og vanrækt hljómplata á meðan Þröstur féll úr eldglæringum skemmtanalífsins niður í kalda ösku hófleysisins. Þröstur hafði ekki nært sig á öðru en steiktum kjúkling og frönskum úr kjötborði Hagkaupa í þeim hálftíma matarpásum sem honum voru úthlutaðar. Þar að auki var hann einnig á þunglyndislyfjum sem með hjálp óútreiknanlegra aukaverkana sáu til þess að hægðirnar gátu verið jafn óreglulegar og veðrið á vesældarfróninu sem hann var dæmdur til að hrærast á. Honum var ævinlega sagt að gleði í pilluformi væri gjöf en ekki gjald. Eftir að hafa ráfað riðlaður um íbúðina náði Þröstur loks á áfangastað. Ekki leið á löngu þar til að kom í ljós að hægðirnar voru bæði eitilharðar og afar óvingarnlegar viðureignar. Hann gat varla haldið augunum opnum á meðan veröldin hringsnérist taktlaust út og suður. Nú hafði fyrirhuguð skemmtisigling endanlega umbreyst í harmleik og hann kastaði upp flötum bjór og hálf meltum skyndibita yfir sig allan. Hann var ekki í ástandi til að vega og meta hvað var að eiga sér stað í raun og veru þar sem hvítan hafði tekið meðvitund hans í afar stutt en djúptækt ferðalag inn á við þar sem ömurleikinn togaðist á við eymdina og eymdin á við sjálfshatrið. „Hingað reika aðeins langveikir andar Þröstur, í þessum forarpytt mátt þú gleymast að eilífu“ mælti rödd sem var ekki hans eigin á meðan hann kastaði upp með náladofa í andlitinu. Þörstur var handviss um að nú væri geðheilsan endanlega á hverfanda hveli. Hér á þessu salerni mátti hann kúldrast í faðmi hvítunnar og biðja fyrir skjótum dauðdaga sem kom honum ekki til bjargar þetta kvöldið. Eftir að þreyta glímu við kingumstæðurnar safnaði hann kröftum til að hysja upp um sig og fann hvernig köld ælan lagðist upp að buxunum. Hann var of máttlaus til að losa sig við skyndibitann sem hafði safnast saman í iðrum hans og hann var staðsettur einhverstaðar í myrkviðum Hafnarfjarðar. Hann yrti ekki á nokkurn mann eftir að hann steig út af salerninu og tók þá ákvörðun að hringja á leigubíl. Þröstur hafði ekki fyrir því að leita uppi Elínborgu né Hlöðver í ljósi þess að þau hurfu á undan honum og hann vildi síst af öllu að Elínborg sæi sig í þessu ástandi. Þröstur tók þá ákvörðun að fá sér sígarettu á meðan hann beið í einskærri hrellingu eftir leigubílnum. Þegar bifreiðarstjórinn mætti loks á svæðið gaf hann gaf Þresti önugur merki um að stíga upp í farartækið og það var þá sem hápunkti hvítunnar var náð, enda gera sígarettur engum gott nema þeim sem er ekki annt um eigin líkama. Neikvæðar hugsanir sem ásóttu hann allan liðlangan daginn allsgáðan eður ei stigu nú fjörlegan dans með fortíðardraugunum sem hann hafði svo lengi reynt að flýja. Hann gubbaði í leigubílinn og bifreiðarstjórinn grenjaði á Þröst í brennandi bræði sinni þungaða af langvarandi þreytu. Þegar þeir nálguðust Hlíðarnar þar sem Þröstur hafði búið síðan hann missti foreldra sína baulaði bifreiðarstjórinn á Þröst að hann stæði frammi fyrir tveimur óhagganlegum úrslitakostum. Sá fyrri var að greiða þrefalt verð og sá seinni að þrífa bílinn sjálfur. Þar sem Þröstur var ekki í ástandi til að bursta í sér tennurnar straujaði hann kreditkortið upp á fimmtán þúsund krónur. Færslan var sár. Ein eymdin bíður annari heim. Þröstur vaknaði fullklæddur um tvö leitið. Þrátt fyrir að langdregnir dagarnir voru undantekningarlaust gráir frá upphafi til enda hafði þessi dagur sveipt yfir sig hulu angursemdar sem íslenskur orðaforði nær aldrei nokkurn tímann yfir. Hann reyndi að púsla saman því sem hafði átt sér stað í gær og fann hann fljótlega hve sárt hann þurfti að ganga örna sinna. Eftir að hafa pírt augun kjökrandi í drjúga stund gat Þröstur ekki tára bundist lengur. Farsíminn var straumlaus eftir nóttina og því bauð vekjaraklukkan honum ekki góðan daginn. „Meh“ sagði hann upphátt, Þröstur var þegar tveimur og hálfum tíma of seinn til vinnu auk þess að vera löðrandi í harnaðri ælu. Eftir átakasamat korter á salerninu fór Þröstur í heita sturtu til að skola af sér minnisvarða gærkvöldsins. Hausverkurinn var óbærilegur, enda á áfengisdauði ekkert sameiginlegt með svefni og leikur heilastarfsemina grátt. Þröstur ræsti farsímann og sá að Elínborg hafði reynt að hringja þrisvar sinnum kvöldið áður og það hlýjaði honum um hjartarætur, en hans biðu einnig ósvöruð símtöl frá verslunarstjóra hagkaupa. Verslunarstjórinn var með þráð á lengd við fílakaramellu og ekki þurti mikið til þess að vekja upp súrrandi stress sem bitnaði á samstarfsmönnum hans, enda vekja þjónustustörf upp það versta í manneskjunni. Þröstur lét Elínborgu sitja á hakanum í þetta skipti. Hann hafði öðrum hnöppum að hneppa, enda nauðsynlegt að koma með sannfærandi afsökun fyrir að mæta svona seint til vinnu. Í leikfangadeildinni hafði Þröstur göfugum skyldum að gegna þar sem allt þurfti að vera í himnalagi svo að kúnnarnir nytu sem ánægjulegastar reynslu af viðskiptunum. Það sem einkenndi starfið fyrst og fremst voru frekjuköst og bugaðir foreldrar. Þröstur lenti í hverju ævintýrinu á fætur öðru í leikfangadeildinni, þangað til að loks kom að hinu langþráða fríi þriðju hverja helgi, og þá þurfti hann að hafa sig allan við til að drekka ekki yfir sig fyrir kvöldverðarleyti. Þegar Þröstur hafði athafnað sig á salerninu heilsaði hann upp á Lúðvík afa sinn sem sat inni í stofu, reykti pípuna sína a áfergju og las fréttablaðið. Lúðvík brá í brún þegar hann sá náfölan drenginn styðja sig upp við vegg og vera en ekki farinn til vinnu. Afi Þrastar sá ávallt í gegnum grímuna sem Þröstur bar, grímuna sem var tekin að molna utan af þreytulegu andlitinu. Hann þekkti einkennin vegna þess að eiginkona hans, Rakel, var sjálf lömuð á líkama og sál vegna langvarandi þunglyndis. Foreldrar Þrastar gengu í framliðinna tölu eftir bílslysi á leiðinni heim af Þorrablóti þegar Þröstur var aðeins ellefu ára gamall og afi hans og amma í föðurætt tóku hann upp á sína arma þar sem þau voru vel stæð og móðurættin kærði sig ekki um að frekari afskipti af börnum. Þröstur sagði afa sínum að hann hefði drukkið yfir sig kvöldið áður og Lúðvík svaraði tómlega að bragði ,,annað eins hefur nú gerst á bestu bæjum“. Hann hellti upp á kaffi, tottaði pípuna greypilega og bauðst til að skutla Þresti til vinnu. Lúðvík sagði ævinlega við Þröst að þegar auðæfi farsældarinnar virtust handan seilingar væri nóg að muna aðeins eitt orð sem gerði gæfumuninn. Gæs Þröstur, gæs! Ég get, ég ætla og ég skal! Ég get, ég ætla og ég skal seilast eftir auðæfum farsældarinnar! ,,Þú ættir ekki ekki að láta heiminn plaga þig drengur, þú hefur alla burði til að láta drauma þína rætast“ mæti Lúðvík gjarnan þegar Þröstur kom sér ekki á fætur þær fáu helgar sem Þröstur var í fríi, en forhertur hugur Þrastar lét það sem vind um eyru þjóta. Lúðvík hafði ekki verið ástfanginn af Rakel í áratugi, enda eltis fegurðin hratt af henni og hún gifti sig bersýnilega til fjárs þar sem Lúðvík erfði kvóta. Eftir að Rakel hafði sökkt sér í fræði Schopenhauer’s gat Lúðvík talið þau skipti á annari hendi þegar það mótaði fyrir brosi á fúnu andliti hennar. Lúðvík var ekki svartsýnn eins og Rakel þrátt fyrir að hafa misst sitt eina afkvæmi og setið uppi með Þröst. Lúðvík var glaðvær, jákvæður og bjartsýnn, algjör andstæða við eiginkonu sína. Hún fór afar sjaldan á fætur án þess að um brýnt erindi væri að ræða, og brýn erindi snérust eingöngu um líf, dauða og kaffi, eins og hún orðaði það sjálf. Í þau fáu skipti sem Rakel sást á fótum blaðraði hún einungis um daufleika lífsins og hve innvirðulega hana hlakkaði til að geispa golunni. Um það leyti sem bekkjarsystkini Þrastar fermdust gjammaði Rakel í tíma og ótíma um hve geta einstaklingsins til að blómstra í heimi ördeyðu væri afmörkuð. Rætur hjartans taka ekki aðeins næringu úr frjóum jarðveginum, þær verða óhjákvæmilega illgresi jarðarinnar að bráð. Glæstustu fyrirhuganir hvers og eins í hinum vestræna heimi eru of stórar og langsóttar fyrir deyjandi hjarta að seilast eftir. Það er ekki þess virði að eyða orku í eltingarleik við draumóra. Tómleikinn væri hvort eð er ávallt til staðar, jafnvel eftir að eitthvað rættist úr draumunum. Ræna manneskjunar var aðeins gloppótt ritgerð sem gleymist að vista eftir dauðann, þegar manneskjan verður að því sama og hún var áður en hún dregur fyrsta andardráttinn, að engu. Rakel sagði einnig reglulega að þegar lífið hættir að snúast um að lifa af vaknar manneskjan dæmd til sjálfsvitundar í firnindum, í heimi þar sem brunnar hug- og andlegra allsnægta þorna upp af eigin höndum. Svona gat hún haldið endalaust áfram. Um árabil þurfti Þröstur að hlusta á masið í ömmu sinni sem hann sá svo sjaldan og ekki þorði hann að áreita hana þegar hún starði tómlega upp í loftið ein undir sæng. Þröstur lærði því með tímanum að efast ekki aðeins um sig sjálfan heldur einnig um allt sem honum var kennt. Einstaklingurinn sem slíkur er ekki alslæmur, heimurinn sjálfur er ömurlegur. Nú sá Þröstur aðeins grá mannvirki og tilgangsleysið uppmálað á alfaraleið. Hann sá bersýnilega hve bágborinn náttúran var orðin af fyrri formfegurð eftir að hún ól af sér hið illkynja krabbamein sem manneskjan er í raun og veru. Hér er ekkert andlegt að finna, aðeins raf- og róteindir flæktar saman fyrir tilviljun í það sem fyrir augu ber, eins og Rakel sagði alltaf þegar eitthvað sálrænt bar á góma. Vitanlega var Rakel ekki á fótum þennan daginn svo þeir Lúðvík og Þröstur gerðu sig reiðubúna til brottfarar án þess að kveðja hana. Lúðvík skutlaði Þresti ekki að ástæðulausu í vinnuna. Hlöðver klessti bifreið Þrastar fyrr í vikunni þegar hann fékk hann að láni til eigin erindagjarða og hafði ekki fjármagnið til að greiða niður tjónið að svo stöddu. Þegar Kringlan var í sjónfæri yfirgaf Þröstur bifreiðina og þakkaði fyrir farið í hálfum hljóðum. Hann kveikti sér í sígarettu og sló á þráðinn til Elínborgar. Eftir stutta bið ansaði Elínborg. ,,Sæl Mjallhvít“ mælti hún í nöprum hæðnistón og blóðið storknaði í æðum Þrastar. Hún vissi þá allt. ,,Meh“. Eftir stutt samtal sagði hún Þresti að mæla sér móts við sig eftir vinnu og slengdi á án þess að kveðja. Þröstur stóð í rigningunni sem eitt spurningarmerki. Eðlilega sáu einhverjir til hans drattast út af salerninu kvöldið áður og út breiddist sagan af Mjallhvíti í kjölfarið eins og eldur í sinu. Hann hélt því hokinn og niðurlútur til vinnu og var of utan við sig til að skálda afsökun fyrir fjarveru sinni. Þegar þangað var komið var verslunarstjórinn sjálfur í framan eins og radísa og fáeinum mínútum síðar drattaðist Þröstur atvinnulaus út úr Kringlunni með tárin í augunum. Þrátt fyrir að hann hataði vinnuna og samstarfsmenn sína þurfti Þröstur á peningum að halda sér til lífsviðurværis. Hann hugsaði með sér að skárri kostur væri að halda á leið til Elínborgar sem leigði íbúð ásamt vinkonum sínum stuttum spöl frá Kringlunni en að labba aftur heim og segja afa sínum frá því sem átti sér stað í Kringlunni. Þegar til Elínborgar var komið gekk Þröstur inn af gömlum vana án þess að gera vart við sig þar sem hann kunni illa við vinkonur hennar. Fljótlega þegar hann nálgaðist herbergi Elínborgar fann hann innra með sér að ekki var allt með feldu. Þröstur greikkaði sporið og heyrði fljótlega falskar stunur Elínborgar sem hann kannaðist svo vel við. Reiðin sauð innra með honum. Hann lagði við hlustir á meðan köld svitaperla myndaðist á enninu. Á því lék ekki nokkur vafi að einhver hjakkaðist á Elínborgu hinumegin við dyrnar. Þröstur strunsaði hugsunarlaust í taumlausu vonskukasti í átt að forstofunni og þegar hann tróð sér önugur í skónna blasti við honum sjón sem súrnaði í augun. Þarna voru fjólubláu skórnir sem Þröstur hafði skrifað á sig fyrir Hlöðver þar sem Þröstur fékk starfsmannaafslátt. Veröldin féll í kringum hann líkt og spilaborg. Þröstur hefði öskrað úr reiði en sorgin hafði lamað raddfæri hans, og því sparkaði hann upp útidyrunum og óð út í grámóskulegt haustregnið. Þau höfðu verið saman í fimm mánuði og hún virtist kunna vel við Þröst eins og hann var úr garði gerður. Nú var Þröstur endanlega fásinni í nakinni einsemd sinni. Eins og Rakel hafði einu sinni sagt dæsandi yfir kvöldverði var ávallt nótt þegar ekki var dagur, ekki dagur þegar ekki var nótt. Heimurinn er myrkur og illur í sjálfum sér. Það var hvorki einstaklingurinn sem mótaði aðstæðurnar né aðstæðurnar sem mótuðu einstaklinginn. Þetta var bara lífið. Röð tilviljanna í fullkominni mótsögn við allt sem Þresti var í hag. Lífið gekk stefnulaust sinn vana gang án þess að virða hann viðlits. Þröstur gekk hokinn áfram án leiðarenda og velti engu fyrir sér öðru en því sem hafði gerst. Hatrið og bræðin sem brann innra með með honum brann loks yfirum og varð að kaldri ösku. Innra með honum var ekkert að finna nema gapandi svarthol sem gleypti alla jákvæða hugsun, líf hans var líkt og framliðin stjarna, því ljós hans sem loks barst að jörðinni var aðeins skuggi hins sjálfdauða sjálfs. Að lokum kom Þröstur að Nauthólsvík. Það var ekki komið kvöld enþá, en tekið var að rökkva hægum en afdráttarlausum skrefum. Þröstur gekk meðfram grynningunum, of orkusnauður, of farmlaus til að særa fram hið smæsta tár. Hann starði út eftir blágráum firnindunum og það eina sem hann fann samtvinnað vesaldómnum var hversu hugfanginn hann var af endilangri auðninni sem blasti við honum. Hann nam staðar í stundarkorn og stóð bugðulaus í fyrsta skipti þennan daginn. Hann starði sem dáleiddur fram í tómið og ekki leið á löngu áður en Þröstur gekk beint að augum út í nístingskaldan sjóinn, en tómleikinn innra með honum var ónotunum yfirsterkari. Hann gekk lengra, og lengra, þar til að sjórinn náði honum upp að mitti, og það var þá sem hann lét sig falla niður og dróg djúpt að sér andann. Auðæfi farsældarinnar, hér kemur Þröstur.


 

Dyr

Eftir Emblu Orradóttur

Stend ég einsamall úti í kuldanum, og ber að dyrum
Dyrum fortíðar
Ég ber að dyrum í vonlausri tilraun til að endurheimta það sem áður var
Blóð mitt hefur dreifst yfir minningarnar,
því ég bankaði svo fast að skrápur minn hafði ekki lengur við

Stend ég einsamall í þögninni, og ber að dyrum
Dyrum framtíðar
Ég ber að dyrum í vonlausri tilraun til að komast yfir hið liðna á örskotsstund
Hætti þegar ég finn húðina á hnúunum gefa eftir, ég vil ekki að framtíðin verði líka blóði drifin

Stend ég einsamall í hópi fólks, og ber að dyrum
Dyrum nútíðar
Ég ber að dyrum í vonlausri tilraun um að vekja eftirtekt
Svo að einhver sjái eymd mína, sárin eru ófá
og blóðið er farið að storkna.


 

Sársaukinn

Eftir Borgnýju Finnsdóttur

Ég horfi út um gluggan og sé börn leika sér. Þau hlaupa um í snjónum, hlæja og kasta snjóboltum. Dóttir mín fékk aldrei að leika sér úti, hún fékk aldrei eðlilegt og áhyggjulaust líf. Hún greindist með hvítblæði bara 2ja ára gömul. Ég man hvað okkur Þóri leið illa þegar við fengum að vita að eina barnið okkar væri dauðvona. Læknarnir sögðu að það væri líklegast að hún myndi deyja fyrir 4 ára aldur, en í seinustu viku varð hún fimm ára. Ég horfi á Anítu, hún liggur í sjúkrarúminu sínu og hjúkka gefur henni djús. Þetta er ný hjúkka. Eftir að hafa verið meira á sjúkrahúsinu en á okkar eigin heimili seinustu þrjú árin, þekkjum við nánast alla sem vinna hérna. Aníta réttir fram handlegginn og ég sé að henni er illt. Ég tek í höndina og sest við hlið hennar. Hún horfir á mig og ég á hana. Hún kreistir hönd mína og tár rennur niður kinn hennar. Ég þurrka það með þumalfingri og kyssi hana á kinnina. „Svona elsku stelpan mín“ segi ég „Þú ert svo sterk og hugrökk“ í gær var okkur sagt að endalokin nálgist, hún mun deyja bráðum. Þórir kemur inn, tekur um axlirnar mínar og kyssir mig á kinnina. „Hvernig líður hetjunni okkar?“ segir hann og kyssir Anítu á ennið. Hún réttir upp þumalinn og brosir. Hún er orðin svo veikburða að hún getur varla talað. Læknirinn kemur inn og gefur Anítu high five. Tómas hefur verið læknir Anítu síðan í byrjun. Okkur líkar mjög vel við hann. „Jæja, hvernig líður þér Aníta?“ spyr hann. „Vel“ segir hún lágt og brosir. „Frábært“ segir Tómas og ýtir á einhverja takka á vélunum. „Hvað er langt eftir?“ spyr ég hann lágt. „Bara fáeinir tímar Petra mín“ segir hann og hristir höfuðið. Ég finn að ég tárast og fæ kökk í hálsinn. Ég kreisti hendina á Þóri og segji sjálfri mér að ég megi ekki gráta, ég verð að vera sterk fyrir Anítu. Síminn minn hringir og ég veit að það er Arna, systir mín. Hún er á leiðinni hingað á spítalann til að kveðja Anítu og vera hjá mér þegar versta stund lífs míns mun eiga sér stað. Við eigum sem betur fer marga góða að og allir eru hjálpsamir. Ég tók mér leyfi frá vinnunni í fyrra og allir voru mjög skilningsríkir. Við löbbum að setustofunni þar sem foreldrar okkar beggja sitja og bíða eftir fréttum. „Tómas segir að hún eigi aðeins nokkra klukkutíma eftir” segir Þórir leiður og sé að hann tárast. „Elsku barn” segir mamma hans og tekur utan um hann. Ég sest á milli foreldra minna og mamma leggur hönd sína á lærið mitt. „Mér þykir það leitt elsku Petra mín” segir hún. Í sömu andrá gengur Arna inn með börnin sín þrjú. „Hæ elsku, elsku systir mín!” segir hún og setur yngsta barnið á gólfið. „Megum við ekki sjá hana?” segir hún og brosir. „Krakkana langaði svo að hitta hana” „Jú,jú” segi ég og fylgi þeim inn á stofu. 4 ára gamli Kolbeinn gengur inn fyrstur og réttir Anítu blómvönd. „Ég týndi þetta sjálfur” sagði hann stoltur. „Reyndar ekki Kolbeinn, það er hávetur úti!” segir mamma hans og hlær. Hún sest á rúmið hjá Anítu og ýtir ljósum hárlokk frá andliti hennar. „Hæ elsku Aníta mín” Aníta tekur utan um frænku sína. „Hæ,hæ” segir hún þreytulega og sest upp. „Hvað segirðu nú gott?” segir Arna og lyftir litlu Elvu upp í rúmið líka. „Allt fínt, mér er samt pínu illt” segir Aníta og brosir framan í litlu frænku sína. Elva hlær og Aníta brosir breitt. Ég lít í spegil á veggnum og sé hvað ég er með rosalega bauga. Ég vakti alla nóttina. Ég geng að speglinum og greiði fingrunum í gegnum þykkt og svart hárið. Ég vef því um fingurna og set það upp í snúð. Ég tek upp svörtu töskuna mína sem liggur á stól við vegginn og róta í henni þar til ég finn snyrtiveskið mitt. Ég set á mig örlítinn maskara og bláu augun mín lífgast við. Ég set á mig smá gloss og nudda vörunum saman. Þegar ég lít í spegilinn sé ég Þóri standa fyrir aftan mig. Hann setur hendurnar á axlir mínar og hvíslar í eyra mitt. Ég kyssi hann á kinnina og tek utan um hann. Mig langar ennþá til að gráta en ég ætla að vera sterk. Við horfum á Anítu leika við Elvu og sjáum hvað hún er glöð. Allt í einu pípir eitthvað tæki og læknar koma inn. Arna fer með börnin fram og lokar hurðinni. Ég finn að ég er hrædd og ég titra öll. „Hvað er að gerast?” segi ég en fæ ekkert svar. „Mér er illt” segir Aníta læknarnir ýta á einhverja takka og sprauta hana. Tómas kemur til okkar og útskýrir fyrir okkur hvað er í gangi. Aníta finnur mikið til og þeir ákváðu að gefa henni verkjalyf sem gerðu dauða hennar ekki jafn sársaukafullan. Ég tárast og horfi á Anítu umkringda læknum og hjúkrunarfræðingum. Þegar læknarnir loksins fara sest ég hjá Anítu og tek í hönd hennar. Foreldrar mínir, tengdó, Arna og systkin Þóris koma inn. Þau kyssa öll Anítu, því þau vita að þetta er seinasta skiptið sem þau munu sjá hana. Hún er farin að eiga erfitt með að halda augunum opnum og andar hægt og erfiðlega. Við Þórir höldum í sitt hvora hönd hennar og tölum aðeins við hana. „Mamma, er ég að deyja núna?” spyr hún mig og horfir á mig. „Já, elskan mín, ég er hrædd um það” rétt næ ég að koma uppúr mér. Nokkur tár renna niður kinnar mínar. „Ekki gráta mamma” segir Aníta og þurrkar tárin. „Ekki vera hrædd” segir hún svo og lokar augunum. „Ég elska ykkur bæði” segir hún lágt, opnar augun og andar svo út. Ég finn að hönd hennar er máttlaus og hún andar ekki aftur inn. Augu hennar horfa beint áfram og hreyfast ekki. Ég sé hvernig lífið fer úr líkama hennar og heyri svo langt píp í tækjunum til hliðar. Tómas tekur það úr sambandi og labbar svo út. Ég átta mig á því að hún er dáin, litla stelpan mín er dáin. Ég loka augunum á henni svo það sé eins og hún sé bara sofandi. Ég byrja að gráta og kyssi hana á ennið. „Ég elska þig Aníta mín” segi ég og fæ ekkasog. Þórir grætur líka og grefur höfuðið í höndum sér. Ég stend upp og labba að honum. Ég tek utan um hann og við grátum bæði tvö. Við grátum lengi þar til við stöndum bæði upp og horfum á dóttur okkar þar sem hún liggur alein og dáin, náföl og með bros á vör, upp á sjúkrarúmi hennar og hugsum að nú líði henni betur.


 Hér eru nöfn þáttakenda í stafrófsröð og tengill í texta þeirra sem veittu leyfi fyrir birtingu:

Agnes Ársælsdóttir

Anita Vestmann

Anna Dúa Kristjánsdóttir

Aron Freyr Ólason

Axel Franz Jóhannsson

Baldur A. Vilhjálmsson

Birgitta Eva Hallsdóttir

Borgný Finnsdóttir

Dagbjört Katrín Jónsdóttir 

Darri Rafn Hólmarsson

Embla Orradóttir 2 3

Gísli Guðmann

Gunnlaug Helga Ásgeirsdóttir

Hafdís María

Herdís Júlía Júlíusdóttir

Hermína Fjóla Ingólfsdóttir

Hólmfríður María Þorsteinsdóttir

Ingi Jóhann Friðjónsson

Jarþrúður Árnadóttir

Jóhanna Sigurðardóttir,

Jóna Kristjana Hólmgeirsdóttir

Kamilla Dóra Jónsdóttir

Kristófer Páll Viðarsson

Lilja Björg Jónsdóttir

Ninja Rut Þorgeirsdóttir

Olga Katrín Olgeirsdóttir

Rósa Ingibjörg Tómasdóttir

Sigrún María Óskarsdóttir

Sunneva Birgisdóttir


Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan