Lýðræðisleg sögustund og frjálst föndur í tilefni af viku barnsins

Vika barnsins stendur yfir á Akureyri dagana 13.-20. nóvember. Af því tilefni munu börnin sjálf kjósa hvaða bók verður lesin í sögustund á Amtsbókasafninu fimmtudaginn 14. nóvember kl. 16:30.

Meirihlutinn ræður og valið er á milli bókanna:

  • Hæ afi gæi!
  • Krókódílar stranglega bannaðir
  • Svona tala kýr


Eftir lesturinn verður boðið upp á frjálst föndur þar sem ýmiskonar efniviður verður í boði. Afrakstur þeirra sem vilja verður til sýnis í sýningarrými safnsins.

Öll börn hjartanlega velkomin!

 

Frekari upplýsingar um viku barnsins: 

Markmiðið með viku barnsins er að vekja athygli á málefnum barna með fjölbreyttum hætti. Tilefnið er 30 ára afmæli Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna þann 20. nóvember, en sá dagur er árlega tileinkaður réttindum barna.

Þetta árið ætlar Akureyrarbær að stíga skrefinu lengra og halda upp á viku barnsins sem nær hámarki á afmælisdeginum. Ástæðan er einkum sú að Akureyrarbær vinnur markvisst að því, fyrst sveitarfélaga á Íslandi, að ljúka innleiðingu á verkefninu Barnvænt sveitarfélag sem byggir á Barnasáttmálanum.

Við undirbúning eru fjórar grundvallarforsendur Barnasáttmálans hafðar að leiðarljósi og varpa þær ágætu ljósi á markmið Akureyrarbæjar í tengslum við viku barnsins:

  • Við höfum það í huga að mismuna ekki börnum sveitarfélagsins
  • við gerum það sem barninu er fyrir bestu
  • við leitumst við að hámarka lífsgæði og þroska allra barna og við munum að í barnvænu sveitarfélagi eru börn ekki bara sýnileg, það heyrist líka í þeim og við hvetjum þau til þátttöku.

Dagskrá vikunnar.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan