Skylduskil á Amtsbókasafninu

Kæru safngestir! Eins og þið kannski vitið er Amtsbókasafnið á Akureyri svokallað skylduskilasafn, sem þýðir að það á að varðveita eitt eintak af öllu prentuðu efni hér á Íslandi.

Skylduskilin eru ekki lánuð út. Safngestir geta þó fengið afnot af skylduskilum innanhúss, gegn framvísun bókasafnsskírteinis (sem margir eru komnir með í símana sína) eða með því að fylla út þar til gerðan miða sem finna má í afgreiðslu.

Undir skylduskil flokkast meðal annars bækur, barnabækur, kennslubækur, hljóðbækur, tímarit, árbækur, ársskýrslur, fréttabréf, sjónvarpsdagskrár, glanstímarit, dagblöð, héraðsblöð, kosningablöð, skólablöð, myndablöð, hverfablöð, skýrslur, landakort, veggspjöld og smáprent, t.d. bæklingar, auglýsingar, verðlistar, leikskrár, sýningarskrár, tónleikaskrár, póstkort, jólakort og spil.

Safninu berst á ári hverju mikið magn af skylduskilum. Á bilinu 70-100 kassar á ári. Þessi skylduskil dreifast um geymslur safnsins og fer töluverður hluti þeirra í geymslu í kjallara safnsins.

13. desember sl. var undirritaður samningur um að menningar- og viðskiptaráðuneytið veiti Akureyrarbæ 30 milljóna króna styrk sem ætlað er að styðja við þetta hlutverk Amtsbókasafnsins. Gildistími samningsins er 2023-2025 og greiðir ráðuneytið samkvæmt honum árlega 10 milljónir króna til Akureyrarbæjar vegna skilaskyldu Amtsbókasafnsins, samtals 30 milljónir króna.

Að koma á safnið er góð skemmtun og skylduskilin geta sannarlega verið skemmtileg og fræðandi. Aðstaðan á safninu er notendum frí og við erum opin alla virka daga 8:15-19:00 (skylduskil ínáanleg 10:00-19:00) og laugardaga frá 11:00-16:00.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan