Safnefni, matur, veðurfar og fleira

Sá sem ritar þessa frétt gerir sér fulla grein fyrir fegurð myndarinnar, en biður safngesti og aðra …
Sá sem ritar þessa frétt gerir sér fulla grein fyrir fegurð myndarinnar, en biður safngesti og aðra um að geyma ekki smákökurnar beint á blaðsíðunum. Þeir sem geta eiga samt endilega að drekka mjólk ...

Sjaldan er góð vísa of oft kveðin ... sagði einhver fyrir löngu og við fylgjum því auðvitað eftir.

Veturinn hefur verið okkur Akureyringum nokkuð veðurgóður en það koma dagar þar sem kuldinn er meiri og flíkurnar því fleiri. Þessi sannindi, eða öllu heldur þessi margkveðna vísa, eiga við alltaf. Við viljum nefnilega að sem flestir komi á fallega safnið, staldri þar við og fái sér efni til útláns. Að einhverjum tíma liðnum er svo efninu skilað og næsti lánþegi fær það í hendurnar.

Mynd tekin úr Naustaborgum og Akureyri og Eyjafjörður í bakgrunni. Sól og snjór, blátt og hvítt ráðandi litir

Varðandi veðrið, þá gerist það stundum að Akureyringar fari í vinnuna (!!) að morgni á bíl og ætli að skila bókum á bókasafnið eftir vinnu. Gott og vel, en samt ... það fer ekki vel með bækurnar að geyma þær í bílnum á meðan. Kuldinn fer illa með bækurnar, síður verpast og límingin í kilinum verður slappari. Okkur munar ekkert um það að hafa bókapokann hjá okkur í hlýjunni, hmm? Og þrátt fyrir að hafa bílinn á parkplássinu rétt fyrir neðan safnið, þá nær rigningin alveg að komast í blaðsíðurnar ef bækurnar eru ekki geymdar í einhverjum poka (hliðarnóta: við seljum tau- og bréfpoka). Enginn er svo fljótur að hlaupa undan rigningu :-)

Við starfsmennirnir þrífum gögnin eftir að þeim er skilað, en stundum er eins og gleðin við lesturinn hafi verið öðru yfirsterkari. Kaffiblettir og kakóslettur eru ekki það vinsælasta fyrir næsta lánþega. Myndin sem fylgir fréttinni er auðvitað uppsett en það er ekki ólíklegt að svona staða geti komið upp. Að fá sér mjólk og kexkökur með bókinni góðu. En við sem höfum bakað reglulega vitum að fitan í kökunum getur skilið eftir sig bletti og því er best að hafa kökurnar á litlum disk við hliðina og jafnvel eldhúspappír til að þurrka putta í áður en blaðsíðum er flett. Ef þið eruð að nota poka sem notaður var í innkaupum á matvörum þegar þið eruð að fá eða skila bókum, passið þá vinsamlegast upp á að engar matarleifar eða því tengt sé í pokanum.

Mynd af óleystri krossgátu

Svo er líka ágætt að nota þennan vettvang til að minna ykkur á það að krota ekki í safnefni (stigablöð, blokkir og annað tengt borðspilum er auðvitað leyfilegt að krota á). Námsfólk og fræðingar vilja kannski strika undir orð eða setningar til áherslu ... en það er ekki vel séð á blöðum og bókum safnsins. Ef tímaritið inniheldur skemmtilega krossgátu sem þú verður að leysa ... þá er til þessi frábæra ljósritunarvél hjá okkur. A4-ljósrit kostar einungis 50 kr.

Það má súmmera þetta allt saman í eina setningu: skilaðu safnefni í sama ásigkomulagi og þú fékkst það. Ef það tekst alltaf, þá endist það betur og veitir fleirum ánægju.

Sjáumst hress og kát á Amtsbókasafninu (8:15-19:00 virka daga, 11:00-16:00 laugardaga ... en leysum ljósritaðar krossgátur með kaffinu á sunnudögum ;-) )

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan