Ofurhetjur á Amtsbókasafninu

Ofurhetjur á borð við Ofurmennið, Kóngulóarmanninn og Leðurblökumanninn, hafa lengi verið vinsælar í formi teiknimyndasagna og kvikmynda. Ef eitthvað er, þá hefur áhuginn aukist síðustu ár og má merkja það meðal annars í stórskemmtilegri markaðssetningu á The Avengers myndinni sem kemur í kvikmyndahús á næsta ári.

Í The Avengers koma saman nokkrar ofurhetjur sem Marvel fyrirtækið hefur gert frægar. Norræn goðafræði á sinn hlut í þessum hóp, því þrumuguðinn Þór er þeirra á meðal, svo má finna Kaftein Ameríku, græna tröllið Hulk, Járnmanninn og Svörtu ekkjuna. Frá árinu 2008 hafa nefnilega verið gefnar vísbendingar um þessa stórmynd næsta árs í einstökum myndum um Þór, Kaftein Ameríku, Járnmanninn og Hulk.

The Avengers er leikin mynd, en auðvitað eigum við á Amtsbókasafninu nokkrar teiknimyndir um þessar ofurhetjur. Við státum líka af einu stærsta safni teiknimyndasagna á íslensku bókasafni og þar á meðal má finna tugi bóka um fyrrnefndar hetjur, sem og aðrar ofurhetjur.

Meðal nýrra kvikmynda í safninu hjá okkur er hin feykigóða kvikmynd Thor, sem Bretinn Kenneth Branagh leikstýrir. Chris Hemsworth fer með titilhlutverkið en í myndinni má finna Óskarsverðlaunahafana Anthony Hopkins og Natalie Portman, ásamt öðru stórskotaliði.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan