Nokkrar fréttir - ókeypis tónlist lýkur, jólin koma, Facebook, leiðinlegar myndir ... o.fl.

Kæru safngestir og heimasíðu-notendur!

Í dag er 29. nóvember 2010, sem þýðir að átakinu "Ókeypis tónlist" lýkur á morgun. Munið að grípa tækifærið alveg þar til klukkan slær 19:00 annað kvöld (30. nóvember)

Aðventan er byrjuð og Amtsbókasafnið á Akureyri er komið í jólaskap, sem sést á skreytingum hér og hvar um safnið og einnig verður lítil jólasýning hjá okkur í desember. - Nýir mynddiskar og nýir geisladiskar koma í desember-byrjun og þá er um að gera að vera tilbúin(n) að ná eintaki eða panta.

Upplestur tveggja höfunda 10. desember verður auglýstur betur síðar, en jólasögustundin yndislega verður haldin næstkomandi laugardag (4. desember) kl. 14:00!

Facebook síða safnsins hefur verið í sókn og fengið góða athygli. Við bendum ykkur á að auglýsa síðuna endilega hjá vinum og fáið áhugasama til að "líka við" síðuna. Þetta er svo frábær vettvangur til að auglýsa starfsemina og það sem er framundan, ásamt auðvitað heimasíðunni. Gaman væri líka að fá athugasemdir frá ykkur um hvað ykkur finnst gott og/eða vont við Facebook síðuna okkar (og heimasíðuna líka).

"Leiðinlegum myndum" hefur gengið vel síðan átakið var sett af stað fyrir mánuði síðan. Nú virðast bara BBC-uppfærslur af Shakespeare verkum, ásamt þremur öðrum myndum, vera eftir - og við reynum öll að útrýma þessum leiðinlegu myndum með því að fá þær að láni. - 0 kr. útlán á leiðinlegum myndum ... bara gaman að því.

Nýtt efni kemur daglega í safnkostinn hjá okkur. Við bendum ykkur á að hægt er að panta efni sem er í útláni á netinu og með því að hringja í okkur, og auðvitað með því að tala við okkur á staðnum. Hver pöntun kostar 200 kr. og borgast þær þegar þið fáið viðkomandi gagn í hendurnar.

Við bendum ykkur líka á nýja heimildamynd um Amtsbókasafnið eftir Hjalta Þór Hreinsson. Hægt er að fá hana lánaða á DVD-formi hjá okkur (frítt) og svo er líka hægt að horfa á hana í gegnum Youtube-vefinn eða t.d. með því að klikka á þennan hlekk: Amtsbókasafnið á Akureyri

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan