Myndbönd færa sig um set - og munu á næstu misserum hverfa alveg

Við viljum benda safngestum á að öll myndbönd (VHS) á 1. hæðinni hafa verið flutt upp í Geymslu 1 á 2. hæð. Þetta er geymsla sem hýsir m.a. bækur sem gefnar voru út fyrir 1970 og er opin öllum; gengið er inn í hana inn af ganginum sem er til hægri við afgreiðsluborðið þegar komið er upp stigann. Endilega spyrjið ef þið eruð ekki viss. Hillurekkinn og hillurnar í geymslunni eru vandlega merktar þannig að þið ættuð að geta gengið að spólunum vísum þar.

Þetta þýðir að mynddiskarnir ná yfir alla kvikmyndadeildina á 1. hæðinni og sumir flokkar kvikmyndanna eru vonandi sýnilegri fyrir vikið.

Þá er kannski ágætt að útskýra hvernig merkingarnar á myndunum virka. Á kili hulstranna eru miðar sem innihalda þrjár línur: efst er merking fyrir tungumál myndarinnar (þrír hástafir), svo koma fyrstu þrír stafirnir í titli myndarinnar fyrir neðan og að lokum ákveðið númer sem hver mynddiskur fær. Nánari útskýring:

ENS : enska
Dam : The Damned United (greinir er aldrei tekinn með)
2698 : Þetta er tvöþúsundsexhundruðníutíuogáttundi diskurinn sem skráður er inn í mynddiskaeign safnsins!

Og til skemmtunar má telja upp nokkra tungumálaflokka sem eru til í mynddiskunum hjá okkur:

FRA - franska
FAR - farsí (persneska)
FRÆ - fræðslumynd (vissulega ekki sérstakt tungumál, en sérflokkur samt og myndirnar í þessum flokki geta verið á öllum tungumálum)
RÚS - rússneska
RÚM - rúmenska
THA - thaílenska
POR - portúgalska

og mörg fleiri!!

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan