Verið velkomin á opnun sýningar Ingibjargar Helgu Ágústsdóttur fimmtudaginn 13. júní kl. 16:00. Sýningin er hluti af Listasumri á Akureyri og mælum við eindregið með að taka göngutúr til okkar og heimsækja fleiri söfn í leiðinni. Boðið verður upp á léttar veitingar.
Ingibjörg Helga Ágústsdóttir er með bakgrunn í fatahönnun en er nær eingöngu í útskurði í dag.
Verk Ingibjargar sækja innblástur sinn í þjóðsögur og búningahefð okkar Íslendinga. Hún byrjaði að skera út af alvöru upp úr 2008 og á hverju ári fæðast ný verk og fuglar á vinnustofu hennar í kjallara gamla verslunarhúss Tang og Riis í Stykkishólmi.
Á þessari sýningu má sjá húsfreyjur Ingibjargar en þær skarta ýmist fuglum, en þá vísa fuglaheitin í nöfn Freyjanna, eða að þær eru með vængi en þá eru þær svokallaðar flugfreyjur. Einnig má sjá fugla á veggjum og á vösum. Vasarnir eru eftir leirlistakonuna Sigríði Erlu Guðmundsdóttur en hún hefur unnið mikið með íslenska leirinn í gegnum tíðina. Fuglavasarnir eru samstarfsverkefni Ingibjargar og Sigríðar Erlu.
Sýningin stendur út júlímánuð í sýningarrými Amtsbókasafnsins á Akureyri. Okkur er sönn ánægja að fá verk Ingibjargar norður og vonum að gestir safnsins njóti þess að skoða þessi glæsilegu verk í sumar.