Í Tötraskógi

Þriðjudaginn þriðja desember klukkan 17:00 mun Andrés Eiríksson kynna bók sína „Í Tötraskógi“ á Amtsbókasafninu.

Andrés hefur búið á Írlandi í nær þrjá áratugi og starfað þar sem sagnfræðingur, kennari og íþróttafulltrúi. Bók hans Í Tötraskógi inniheldur þýðingar á ljóðum úr ensku yfir á íslensku, ljóð sem njóta lýðhylli bæði á Írlandi og Bretlandi. Þetta eru ljóð sem hjartfólgin og munntöm eru almenningi þessara landa, og mörg þeirra einnig þekkt sem sönglög.

Meðal skáldanna eru W.H. Auden, Philip Larkin, Robert Burns, John Keats, Byron, Shelley, Tennyson, Robert Frost, A.E. Housman, Thomas Moore, Oscar Wilde og síðast en ekki síst þjóðskáld Íra William Butler Yeats.

Auk þess að lesa mörg ljóðanna mun Andrés segja frá sumum skáldanna, tilurð einstakra ljóða og tónlistinni sem samin hefur verið við þau.

Aðgangur er ókeypis og allir eru velkomnir.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan