Hrund Hlöðversdóttir í boði Ritfanga

Hrund Hlöðversdóttir rithöfundur segir frá ritstörfum sínum síðustu árin, miðvikudaginn 4. desember kl. 17:00.

Um þessar mundir fylgir hún eftir bók sinni ÓLGU, kynjaslöngu, sem kom út í vor og er það Bókaútgáfan Hólar sem sá um útgáfuna. Bókin er sú þriðja og síðasta í þríleik ungmennabóka sem fjalla um unglinga sem kynnast álfheimum og þeim ævintýraheimi sem þjóðsögurnar íslensku færa okkur. Hver bók er sjálfstætt framhald um sömu sögupersónur en í ÓLGU vinnur höfundur sérstaklega með sæskrímsli, haffólk og vatnaorma.

Fyrri bækur eru: ÓGN, ráðgátan um Dísar-Svan og ÓRÓI, krunk hrafnanna.

Nánari upplýsingar um höfund og bækurnar er að finna á heimasíðunni hrund.net.

Áður hafa komið út námsbækur eftir Hrund sem Námsgagnastofnun gaf út og einnig Biskupsstofa. Einnig hefur Hrund átt aðeins við ljóðagerð og nokkur ljóð hafa birst eftir hana.

Síðasta hálfa árið hefur Hrund dvalið erlendis við skrifir á nýrri bók sem ber vinnuheitið, Skvísur í krísu, og er það fullorðinsbók sem fjallar um ástina á öllum tímum æviskeiðsins. Stefnt er að útgáfu þeirrar bókar næsta sumar eða haust. Í nýju bókinni fléttar hún saman ástarsögu frá hernámsárunum - gerist á Langanesi árið 1942-1943 og síðan nútíma ástarsögu konu á miðjum aldri sem er að fóta sig að nýju eftir skilnað.

Hrund mun segja frá skrifum sínum og vinnunni við að gefa út bók. Hún skrifar sjálf í flæði og mun segja frá því hvernig það gengur fyrir sig.

Um höfund:
Hrund Hlöðversdóttir fæddist á Akureyri árið 1972. Hún lauk kennaraprófi frá Kennaraháskóla Íslands árið 1997 og Meistaragráðu með áherslu á stjórnun menntastofnanna frá Háskólanum á Akureyri árið 2011. Hún hefur lengst af starfað í grunnskólum og þá aðallega sem skólastjórnandi en er nú sjálfstætt starfandi rithöfundur. Hún hefur skrifað fimm námsbækur, ljóð og ungmennabækurnar þrjár.

Til hliðar við skriftir sinnir hún öðru áhugamáli sínu sem er tónlist og syngur hún og spilar á harmoniku.

Þessi viðburður er í boði Ritfanga sem eru studdir af Menningarsjóði Akureyrarbæjar.

- - -

Við hvetjum ykkur til að mæta með umhverfisvænum hætti á viðburðinn. Frítt er í strætó og allir strætisvagnar stoppa í miðbænum í 300 metra fjarlægð frá safninu.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan