Síðustu 25 ár eða svo hefur sannkallað glæpafár geisað í íslenskum bókmenntum – og því ber að fagna!
Þetta glæpafár er engin tilviljun, heldur afleiðing skipulagðrar glæpastarfsemi sem hófst þegar nokkrar glæpsamlega þenkjandi sálir rottuðu sig saman í reykfylltu bakherbergi árið 1999, stofnuðu Hið íslenska glæpafélag og byrjuðu að plotta eitt allsherjar útsmogið samsæri um að koma íslensku glæpasögunni rækilega á íslenska bókmenntakortið.
Óhætt er að segja að það markmið hafi náðst – og gott betur – á þeim tæpa aldarfjórðungi sem liðinn er frá stofnun félagsins. Þrátt fyrir það, eða kannski einmitt þess vegna, höldum við okkar skipulögðu glæpastarfsemi ótrauð áfram. Í ár fögnum við 25 ára afmæli félagsins og velgengni íslenskra glæpasagna og höfunda þeirra með mörgum og fjölbreyttum viðburðum, undir yfirskriftinni Glæpafár á Íslandi.
Flestir verða viðburðirnir haldnir í samstarfi við almenningsbókasöfn vítt og breitt um landið. Allir viðburðir verða kynntir jafnharðan og dagskrá þeirra og dagsetningar liggja fyrir. Fylgist með! (Hið íslenska glæpafélag )
Þess má geta að stórkostlegt glæpakviss verður á Amtinu (og á bókasöfnum út um land allt!) næstkomandi fimmtudag. Þið getið ýtt á hlekkinn hér á undan til að fá nánari upplýsingar eða skoðað viðburðadagatalið ... og svo minnum við líka á þemaborðið okkar á fyrstu hæðinni sem er helgað 100 vinsælustu glæpasögunum hjá okkur á síðasta ári!
Það er skuggalega gaman!
Verkefnið Glæpafár á Íslandi er styrkt af Bókasafnasjóði.