Kæru íslenskuunnendur og aðrir safngestir! Við vildum endilega benda á þetta frábæra verkefni sem er í gangi og miðar að því að stuðla að auknum möguleikum fólks í notkun íslensku á sem víðtækastan og fjölbreyttastan hátt, að fólk sem lærir málið, sama hvar á vegi það er á vegi statt, fái stuðning og skilning þeirra sem hafa vald á íslensku. Átakið snýst því mikið til um vitundarvakningu, hvað felst í því að læra málið, hvernig við sem samfélag getum stuðlað að framförum fólks í íslensku, að fólk hafi tækifæri til að nota málið við sem flest tækifæri.
Ólafur Guðsteinn Kristjánsson, upphafsmaður átaksins og umsjónarmaður íslenskunáms við Háskólasetur Vestfjarða, heimsótti starfsmenn Amtsbókasafnsins og sagði frá átakinu. Þarna voru líka starfsmenn frá Háskólanum á Akureyri og Símey. Áhugi Ólafs á efninu var augsýnilegur og hann náði að gera okkur öll áhugasöm og meðvituð um, að það sé nauðsynlegt að gefa íslensku séns.
„Við erum öll almannakennarar!“ - Viltu fá nánari útskýringu á þessu? Viltu vita meira um þetta frábæra verkefni? Endilega kynnið ykkur heimasíðuna og fylgist með þeim á samfélagsmiðlum, t.d. Facebook.