Fyrirlestur um listamanninn Johannes Larsen á ferð um Ísland

Johannes Larsen
Johannes Larsen

Listamaður á söguslóðum. Johannes Larsen á ferð um Ísland 1927 og 1930

Þriðjudaginn 22. september,  kl. 20:00 verður fjallað um ferðir hins þekkta danska listmálara Johannes Larsen til Íslands vegna myndskreytinga hans við hátíðarútgáfu Íslendingasagna í Danmörku árið 1930. Fyrirlesari er Vibeke Nørgaard Nielsen.

Gunnar Gunnarsson rithöfundur og vinur hans, danski rithöfundurinn Johannes V. Jensen, áttu frumkvæði að veglegri útgáfu Íslendingasagnanna í Danmörku í tilefni þúsund ára afmælishátíðar Alþingis árið 1930. Til að gera veg sagnanna sem mestan fengu þeir hinn þekkta listmálara Johannes Larsen til að túlka sögusviðið í myndum. Larsen fór í tvær langar og erfiðar ferðir um Ísland á árunum 1927 og 1930, kynntist landi og þjóð og vann verk sitt á aðdáunarverðan hátt. Ólafur Túbals, bóndi og listmálari í Múlakoti í Fljótshlíð, var aðalfylgdarmaður hans. Myndir Johannesar Larsens eru eftirminnileg,  hófstillt og blæbrigðarík listaverk, alls á fjórða hundrað talsins, og dagbækur hans og Ólafs Túbals mikilsverðar heimildir um samfélag á breytingaskeiði. 

Vibeke Nørgaard Nielsen rithöfundur hefur kynnt sér ítarlega dagbækur Johannesar Larsens og Ólafs Túbals og ferðast í fótspor þeirra um Ísland og árið 2004 gaf Safn Johannesar Larsens í Kerteminde út bók hennar, SAGAFÆRDEN Island oplevet af Johannes Larsen 1927 og 1930. Sigurlín Sveinbjarnardóttir þýddi bókina á íslensku. Hún hefur nú verið gefin út af bókaútgáfunni Uglu og ber titilinn Listamaður á söguslóðum Johannes Larsen á ferð um Ísland 1927 og 1930.

Í þessum fyrirlestri um afreksverk Johannesar Larsens í þágu íslenskrar menningar er honum fylgt eftir um söguslóðirnar með frásögn og myndum af íslenskri náttúru í tengslum við listaverk hans. Larsen fór um Eyjafjörð og vítt um Norðurland, vann af kappi og kynntist fólki og aðstæðum. Í fyrirlestrinum er lögð áhersla á þennan þátt í ferðum hans.

 

Styrktaraðili:  STATENS KUNSTFOND

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan