(svör) Kæru safngestir! Í kjölfar vel heppnaðs Glæpakviss í gær, þá höfum við formið á föstudagsþrautinni eilítið öðruvísi núna. Þetta er einfalt: tíu spurningar sem tengjast Amtinu að einhverju leyti (eða safnkosti þess).
Auðvitað er langskemmtilegast í svona getraunum að svindla ekki (lesist: gúgla, sem nú er "viðurkennt" orð í íslensku vegna vinsælda Google leitarvélarinnar - elsta dæmið um notkun orðsins er í Fréttablaðinu í júní 2005). Rétt svör koma eftir helgi.
Ef þið eruð óþreyjufull þá megið þið hafa samband við ritstjóra heimasíðunnar og hann sendir ykkur svör um hæl.
Vonandi eigið þið góða helgi, lesið sem mest, leikið, horfið ... bara: hafið það yndislegt!
Starfsfólk Amtsbókasafnsins
- - - -
SPURNINGAR ERU KOMNAR MEÐ SVÖR!
1. Glæpasaga sem gerist að vetri til á Vestfjörðum ... tvær litlar systur týnast í óveðri og aldarfjórðungi síðar er stóra systir þeirra orðin rannsóknarlögreglukona á Ísafirði ... – hver er höfundurinn og hvað heitir bókin sem kom út árið 2024?
- Hildur eftir Satu Rämö
2. Ungur rannsóknarblaðamaður, drykkfelldur sjómaður sem blótar mikið, hvítur terrier-hundur ... hljómar kunnuglega – en hvaða bækur innihalda þessar persónur og hver er höfundurinn? (extra stig ef þið gefið bæði upp dulnefnið og alvöru nafnið)
- Tinna-bækurnar eftir Hergé (Georges Remi)
3. Þessi höfundur skrifaði mikið sem barn og unglingur í sveit en fyrstu útgefna bókin kom út árið 1946 og þá var höfundurinn 59 ára! Skrifaði stöðugt næstu 27 árin og lést 1975. Hver er höfundurinn?
- Guðrún frá Lundi (Guðrún Baldvina Árnadóttir)
4. Bella Mackie skrifaði bók sem á íslensku heitir Hvernig á að ______ fjölskyldu sína. Fyndin, grípandi og grimm er sagt um bókina. Hvaða orð vantar í titilinn? (kom út á þessu ári)
- drepa (Hvernig á að drepa fjölskyldu sína)
5. Hver er samkvæmt heimsmetabók Guinness talin vera sú sögupersóna sem oftast hefur birst í kvikmyndum?
- Sherlock Holmes
6. Þessa dagana er verið að frumsýna mynd sem heitir Beetlejuice Beetlejuice (2024) sem er framhald hinnar þekktu Beetlejuice (1988) og er auðvitað til hér á Amtinu í DVD-formi. Leikstjóri myndanna og tónskáld hafa starfað saman við órúlega margar myndir. Hverjir eru þessir aðilar?
- Tim Burton leikstjóri og Danny Elfman tónskáld
7. Nú hafa safngestir eflaust gengið mismikið um Amtsbókasafnið okkar. Nýja byggingin ásamt endurbótum á þeirri eldri var opnuð 2004 og fagnaði 20 ára afmæli í mars á þessu ári. Stofnunin sjálf er 197 ára gömul á þessu ári. En spurningin er einföld: eins og staðan er núna á safninu, þá er meirihluti mynddiskanna okkar á norðurvegg í gömlu byggingunni, hornrétt á þá til austurs er búið að koma fyrir _______________ ?
- Garðverkfærum
8. Árið 1997 kom út fyrsta glæpasagan eftir Arnald Indriðason, Synir duftsins. Svo hefur hann gefið út bók sleitulaust á hverju ári, unnið til margra verðlauna og iðulega efstur eða ofarlega á metsölulistum hér á landi. Fáránlega spurningin í þessari getraun er hins vegar þessi: Hvað eiga hann og amtsbókavörðurinn Hólmkell Hreinsson sameiginlegt?
- Fæddust báðir í janúar 1961
9. Hinn bráðmyndarlegi Henry Cavill hefur leikið í mörgum myndum og þáttum. Hann var ljóshærður í Stardust (2007) og líka í þáttunum The Witcher þar sem hann lék Geralt frá Rivia. Hver er höfundur bókaseríunnar sem þættirnir eru byggðir á og hvaðan er sá höfundur?
- Andrzej Sapkowski frá Póllandi
10. Tommy Wirkola er norskur kvikmyndaleikstjóri, sem meðal annars hefur gert hinar frábæru kvikmyndir Død snø (2009) og Violent Night (2022). Einu sinni átti Amtsbókasafnið myndina Hansel & Gretel: Witch Hunters (2013), sem Tommy leikstýrði og það var merkilegur maður sem samdi kvikmyndatónlistina við þá mynd. Sá aðili fékk nýlega BAFTA sjónvarpsverðlaunin fyrir bestu tónlistina. Hver er maðurinn og hvað gæti verið svona sérstakt við hann fyrir okkur hérna fyrir norðan?
- Þetta er Atli Örvarsson, sem er auðvitað Akureyringur!