Elsku konudags-elskandi safngestir! Föstudagur enn og aftur og þá er tími fyrir þraut. Þar sem konudagurinn er sunnudaginn 19. febrúar þetta árið, þá tengjum við þrautina við hann.
Konudagurinn er fyrsti dagur góu í gamla norræna tímatalinu (sunnudagurinn í 18. viku vetrar, á milli 18.-24. febrúar). Góa færir með sér vaxandi birtu.
Þó svo að orðið „konudagur“ hafi orðið fyrst algengt á 20. öldinni þá er ótrúlegt annað en að það hafi verið rótgróið í máli og menningu.
Sú hefð að menn gefi konum blóm í tilefni konudagsinns virðist hafa hafist um miðjan sjötta áratug síðustu aldar en þá tóku blómasalar að auglýsa konudagsblóm.
Á vísindavefnum frábæra kemur þetta fram samt: „... heitið konudagur á fyrsta degi góu að breiðast út eftir miðja 19. öld, ef til vill frá Þingeyingum. Elsta dæmið er frá Ingibjörgu Schulesen sýslumannsfrú á Húsavík og nokkrum áratugum síðar kemur það fyrir í sögum eftir Guðmund Friðjónsson á Sandi í Aðaldal. Um 1900 er það orðið þekkt um allt land og árið 1927 hlýtur það þá opinberu viðurkenningu að vera tekið upp í Almanak Þjóðvinafélagsins.“
ÞRAUTIN (með svörum!!):
Gengur einfaldlega út á það að svara eftirfarandi spurningum:
1. Fékk Glenn Close Óskarinn loksins fyrir hlutverk sitt í kvikmyndinni The Wife (2017)? (Nei, því miður. Það var stuðboltinn Olivia Colman sem vann fyrir The Favorite)
2. Ást og afbrot nr. 156 heitir Eiginkonan á íslensku. Hvert er upphaflega heitið á þessari ástarsögu? (A stranger's wife)
3. Geturðu fundið (ó)ljósa tengingu bókarinnar Það sem ég hefði viljað vita (2022) og konudagsins? (höfundur bókarinnar er Edda Falak, sem heldur úti hlaðvarpi sem kallast Eigin konur (afbökun á orðinu eiginkonur sem við höfum í heiðri á konudeginum))
4. Á hvaða vikudegi verður konudagurinn árið 2029? (vonandi hafa allir náð þessari erfiðu spurningu ... konudagurinn er alltaf á sama vikudegi: sunnudegi!!)
5. Hvað eiga konurnar Virginia Cherrill, Barbara Hutton, Betsy Drake, Dyan Cannon og Barbara Harris allar sameiginlegt? (Þær voru allar eiginkonur leikarans frábæra Cary Grant)
Hafið það yndislegt um helgina. Til hamingju konur fyrirfram með konudaginn á sunnudaginn!