Kæru safngestir, bændur og allir aðrir! Þrautadagur nr. 2 á árinu er kominn og eðlilega er þemað tengt bóndadeginum. Örfáar og laufléttar spurningar hér, ásamt fróðleik!
Gjafabókin Yndislegi maðurinn minn (sem hægt er að sjá í skylduskilum hjá okkur) segir m.a. aftan á kápu: „Mennirnir okkar eiga það skilið að við sýnum þeim þakklæti okkar í verki og að við segjum þeim hve mikils við metum allt sem þeir leggja á sig, öll viðvikin og endalausa hlýjuna sem þeir eiga til. Í þessari litlu bók er að finna ýmislegt fallegt, skemmtilegt og undirfurðulegt sem við vildum gjarnan sagt hafa við þessar elskur en höfum ekki alltaf komið okkur að.“
Sömuleiðis er hægt að kíkja í gjafabókina Eiginmenn hjá okkur, en eftirfarandi fróðleikur er fenginn úr Sögu daganna eftir Árna Björnsson og svo Þjóðsögum Jóns Árnasonar:
„Bóndi átti að bjóða þorra velkominn með því að fara fyrstur á fætur allra manna á bænum þann morgun sem þorri gekk í garð. Áttu þeir [bændur] að fara ofan og á skyrtunni einni, vera bæði berlæraðir og berfættir, en fara í aðra skálmina og láta hina lafa og draga hana á eftir sér á öðrum fæti, ganga svo til dyra, ljúka upp bæjarhurðinni, hoppa á öðrum fæti í kringum bæinn, draga eftir sér brókina á hinum og bjóða þorra velkomin í garð eða til húsa.“
Við lofum ykkur því samt að þið þurfið ekki að horfa upp á menn í slíkum gjörningum fyrir utan Amtsbókasafnið í dag ... en maður veit sosum aldrei ;-)
Fyrsti dagur Þorra er nefndur bóndadagur en sá síðasti þorraþræll. Þorri hefst alltaf á föstudegi í 13. viku vetrar. Nú á bilinu 19. til 25. janúar en 9. til 15. janúar í gamla stíl fyrir 1700. Hann er fjórði mánuður vetrar í gamla norræna tímatalinu og upphaflega mun upphaf hans hafa miðast við fyrsta nýtt tungl eftir vetrarsólhvörf.
Lauflétta föstudagsþrautin:
1. Nefnið fjóra mánuði úr gamla norræna tímatalinu. - Mörsugur, Þorri, Góa, Einmánuður, Harpa, Skerpla, Sólmánuður, Heyannir, Tvímánuður, Haustmánuður, Gormánuður, Ýlir.
2. Hvað heitir blaðamaðurinn sem tekur viðtalið við Evelyn Hugo? (sjá mynd neðst) - Monique Grant.
3. Hver er höfundur bókanna Yndislegi maðurinn minn og Eiginmenn sem minnst er á í textanum fyrir ofan? - Helen Exley.
4. Hversu oft voru Elizabeth Taylor og Richard Burton gift? - Tvisvar.
5. Hvað nefnist sá eiginmaður sem einhverjum hefur verið þröngvað til að giftast? - Nauðmaður.
6. Hvaða drykk sögðust Stuðmenn nota til að skola niður hákarli, hrútspungum og magál? - Léttmjólk.
Hafið það gott og munið að brosa!