Kæru safngestir! Þegar himnar gráta af gleði og veðrið alltaf best á Akureyri, þá er gott að grípa í fróðleik. Að þessu sinni kíkjum við á hina frábæru síðu: timarit.is
- Ef slegið er inn (innan gæsalappa): "Amtsbókasafnið á Akureyri", þá koma 2259 niðurstöður(greinar) þegar þetta er skrifað.
- Fjárlög fyrir árin 1878 og 1879 fengu smá umfjöllun í Ísafold 29.9.1877 og þar komu fram breytingar á útgjaldalið í frumvarpi stjórnarinnar. Þær helstu voru taldar upp, þar á meðal þessar: Ferðastyrkur handa fátækum skólasveinum sem áttu heima fjarri lærða skólanum, 2000 kr. alls. Amtsbókasafnið á Akureyri átti að fá 200 kr. hvort árið. Kvennaskólinn í Reykjavík hins vegar 400 kr. hvort árið.
- Alþýðublaðið 27. júlí 1960: Í greinarkorninu „Skortur á fé og hentugu húsnæði“ kemur fram að bókakostur Amtsbókasafnsins á Akureyri hafi verið um 37.000 bindi ...
- Næstum því akkúrat helmingur greinanna eru frá tímabilinu 1990-1999 eða 1127.
- Í blaðinu Norðurland (19. október 1907) kemur fram að Amtsbókasafnið á Akureyri hafi með Skálholti fengið að gjöf frá Landbúnaðarfélaginu danska samtals 27 bindi. „Eru það ýmsar fræðibækur um búnaðarmál.“
- Í Ægi (01.09.2000) er auglýsing á næstöftustu síðunni. Þar neðst á síðunni er strikanúmer frá Amtsbókasafninu á Akureyri og kemur nafn bókasafnsins þar fram fyrir ofan. Gott dæmi um hversu öflug og góð skönnunin hefur verið á þessum blöðum :-)
- Tíminn 20. júlí 1971: Þarna kemur fram að minnisvarði um Davíð Stefánsson, skáld, hafi verið afhjúpaður í Fagraskógi daginn áður. Þetta er brjóstmynd af skáldinu, afsteypa úr bronsi. Samskonar brjóstmyndir af þjóðskáldinu mátti finna í Þjóðleikhúsinu og Amtsbókasafninu á Akureyri. (Þess má geta að þessi brjóstmynd af Davíð er nú sjáanleg í norðurenda 2. hæðar bókasafnsins, ásamt samskonar brjóstmynd af Matthías Jochumssyni.
- Í öðru tölublaði Sögu árið 2010 er sagt frá aðalfundi sögufélagsins og þar stendur m.a.: „Það eru helst stofnanir, t.d. bókasöfn, með Amtsbókasafnið á Akureyri í fararbroddi, sem hafa látið áskriftina að á Sögu fjúka í sparnaðarskyni.“
- - - - - - -
Á vefsíðunni timarit.is stendur: "timarit.is er stafrænt safn sem veitir aðgang að milljónum myndaðra blaðsíðna á stafrænu formi af þeim prentaða menningararfi sem varðveittur er í blöðum og tímaritum frá Færeyjum, Grænlandi og Íslandi. Aðgangur er öllum opinn og stuðst er við nýjustu tækni í geymslu og miðlun upplýsinga. Markmiðið er að bæta aðgang að prentuðum blöðum og tímaritum og bjóða upp á nýjar rannsóknaraðferðir. Blöðin og tímaritin hafa að geyma, auk almenns fréttaefnis og auglýsinga, mikið efni á sviði bókmennta, sagnfræði, ættfræði, þjóðlífs, menningar, atvinnuvega og viðskipta. Notendur geta leitað að efni á ýmsan hátt, svo sem eftir löndum og titlum, eða að völdu orði í öllum texta ritanna. Þeir geta einnig blaðað í gegnum efnið og prentað út valdar blaðsíður. Jafnt og þétt bætast við safnið fleiri titlar."
- Ef þið hafið frekari spurningar og finnið ekki svör við þeim á síðunni, þá getið þið haft samband við timarit@landsbokasafn.is - einnig getur starfsfólk Amtsbókasafnsins mögulega svarað einhverjum spurningum.