Flugdrekabók

Sjáum-k eg meir um Munin...
Sjáum-k eg meir um Munin...

Opnun laugardaginn 2. nóvember kl. 15:00!

Sjáum-k eg meir um Munin

Huginn og Muninn / fljúga hverjan dag / jörmungrund yfir. / Óum-k eg Hugin / að hann aftr né komi, / þó sjáum-k eg meir um Munin. Þessi orð Óðins eiga erindi við okkur í dag þegar miðillinn virðist orðinn merkingin. Það er ekki bara minnið sem hverfur þegar við erum á netinu. Sem áminning spretta upp fleyg orð úr skilum munnlegrar og bóklegrar hefðar - í formi flugdreka í bók.

Flugdrekabók

Flugdrekabókin er unnin af Guy Stewart. Hann hefur unnið sem leikari, grunnskólakennari og hönnuður. Guy er fæddur og uppalinn í Kanada en hann hefur búið á Íslandi síðan 1994.

Hér má lesa hugleiðingar listamannsins um sýninguna:

Flugdrekabókin á krossgötum vitundarinnar

 ,,Grundvallarbreyting er í þann mund að verða á því hvernig við hugsum. Sjáum-k eg meir um Munin er hugleiðing um þessi yfirvofandi umskipti. Slík umskipti geta haft mikla þýðingu fyrir vitsmunalega getu okkar, ef við viljum að þau verði til hagsbóta   ættum við að skoða sambærilegar breytingar í fortíðinni. Tilkoma Internetsins og augljós hnignun prentmiðla eru boðberar þessa nýja farvegs hugsunarinnar. Netmiðlar og samskiptamiðlar blómstra, bókabúðir leggja upp laupana og dagblöð hafa naumlega sloppið við allsherjar útrýmingu. Í Sjáum-k eg meir um Munin er á listrænan eða fagurfræðilegan hátt brugðist við hinni nýju vitund sem í vændum er.

Miðill og merking

„Miðillinn er merkingin“ er án efa þekktasta setning kanadíska bókmennta- og fjölmiðlafræðingsins Marshalls McLuhan. Hún er orðin viðtekin kenning í menningarfræðum og látlaust er vitnað í hana. Ég hélt ég hefði meðtekið merkingu hennar fyrir löngu enda er hún ekki beinlínis flókin. Miðillinn (prent, sjónvarp o.s.frv.) flytur ekki einungis skilaboð – sjálfur miðillinn hefur hugræn og félagsleg áhrif. Ég hafði hins vegar aldrei áttað mig fullkomlega á því sem felst í setningunni fyrr en ég fór að nota Internetið. Mitt eigið hugarstarf tók að breytast.

Lestur minn á Internetinu hófst með því að ég fór að glugga í alls konar greinar. Ég fékk fljótt dálæti á ákveðnum netmiðlum og heimsótti þá reglulega til að lesa fréttir og fréttatengt efni. Það tók mig dágóðan tíma að viðurkenna minnisleysið sem smám saman gerði vart við sig samfara lestrinum. Að hverju var ég aftur að leita? Sögur herma að slíkt minnisleysi sé algengur og útbreiddur fylgifiskur lesturs á Internetinu. Minnisleysinu fylgdi brenglun á tímaskyninu. Er klukkan virkilega orðin tvö? Með því að fara oft á Facebook og skoða nýjustu færslur vina og kunningja fengu svo augnablikshvatir mínar umbun frá hinu gagnvirka og félagslega Interneti.

Tíminn sem Internetið byrjaði að éta upp voru stundirnar sem ég var vanur að lesa bækur.

Frá munnlegri hefð til ritmenningar

Ef við okkur blasa breytingar á lestrarvenjum ættum við að kanna samskonar hvörf  sem orðið hafa í sögunni svo að við getum spáð fyrir um áhrif yfirstandandi breytinga. Umskiptin frá munnlegri hefð til bókmenningar eru dæmi um slíka grundvallarbreytingu.  

Tilkoma bókmenningar í samfélög munnlegrar hefðar hefur ekki undantekingalaust verið jákvæð. Ávinningurinn er margvíslegur en samfara mættinum sem fylgir lestrarkunnáttunni hafa annars konar hæfileikar dvínað.

Í samfélagi munnlegrar hefðar var eðlilega borin virðing fyrir góðri minnisgáfu enda hafði fyrsta tæknin sem geymdi upplýsingar, ritmálið, ekki enn verið fundin upp. Þegar skráning heimilda kom til sögunnar og aflétti byrðinni sem fylgdi því að leggja allt á minnið var hugarorkunni beint í farveg frumlegrar hugsunar. Það eru þessi umskipti sem vísað er til í titli verksins sem hér er sýnt:

 

Huginn og Muninn

fljúga hverjan dag

jörmungrund yfir.

Óum-k eg Hugin

að hann aftr né komi,

þó sjáum-k eg meir um Munin.

Rétt eins og heimspekingurinn Sókrates vantreysti ritmálinu af ótta við skaðleg áhrif á hugsunina, varðveita íslenskar bókmenntir samskonar efasemdir í orðum guðsins Óðins. Enda þótt Óðinn sé hræddur við að tapa bæði hugsun og minni er óttinn við minnisleysið meiri. Einstakt framlag íslendinga til þessarar spurningar er kjarninn í verkinu. Hvað ávinnst og hvað tapast við umskiptin frá munnlegri hefð til bókmenningar?

Munnleg hefð

• Hringtengd hugsun

• Hlutbundin hugsun frekar en óhlutstæð

• Orð eru skammlíf hljóð

• Byggist á þátttöku

• Byggist á minnisgáfu

• Byggist á endurtekningu

• Verðlaunar varðveislu

• Mannlegur mælikvarði

Bókmenning

• Línuleg hugsun

• Óhlutbundin hugsun frekar en hlutbundin

• Orðið sem varanlegt tákn

• Enduring compositions / Verk sem lifa

• Byggist á einstaklingnum

• Byggist á hugvitssemi, flokkun

• Verðlaunar nýbreytni

• Fjarlægist frá mannlegum mælkvarða

Netmenning

• Gagnkvæm tengsl: Byggist á þátttöku og einstaklingnum?

• Gagnvirkur texti

• Gríðarlegar upplýsingar

• Minnisleysi

• Byggist á samhljóða áliti

• Verðlaunar hvatvísi

 

Persónulegur útúrdúr

Ísland tók að birtast á sjóndeildarhring mínum þegar ég var í framhaldsskóla. Ég bjó þá í bænum Pas í norðanverðu Manitoba-fylki í Kanada. Ég þekkti ekki Ísland samtímans nema sem klessu ofarlega á heimskortinu, þrátt fyrir mikil íslensk áhrif í mínu heimahéraði. Þau urðu mér ljós síðar en fyrstu kynni mín af Íslandi voru um aðrar dyr.

Á framhaldsskólaárunum hafði ég þegar verið rifinn upp með rótum nokkrum sinnum  þannig að ég hafði ekki bundist stöðum sterkum böndum. Ég bar heiminn innra með mér. Mín kennileiti voru tónlist og önnur listaverk sem ég svo heppinn að hnjóta um í gegnum kirkjuna, kanadíska ríkisútvarpið, frábæra kennara og bækurnar sem ég las. Þeirra á meðal voru verk Tolkiens og hann var undir áhrifum af íslenskum bókmenntum; þetta var það sem hreif mig við Ísland.

Þegar ég yfirgaf Pas og skráði mig í Manitoba-háskóla komst ég að því mér til mikillar undrunar að þar var kennd íslenska í deild sem er helguð íslenskunámi. Það var skyndiákvörðun hjá mér að taka inngangsnámskeið í íslensku en hún leiddi mig á  endanum til Íslands. Það sem orkaði sterkast á mig þegar ég fór að kynnast Íslendingum í háskólanum og afkomendum Íslendinga voru djúpstæð tengsl þeirra við bókina.

>> 2011

Nú hraðspóla ég til ársins 2011 og staðnæmist við deilurnar um verkið Fegursta bók í heimi sem var sýnt í Reykjavík á sýningunni Koddu. Fólk sem hafði áhuga á málinu skiptist í fylkingar um merkingu verksins: vel hönnuð bók, fallegur hlutur, var ötuð út í alls konar óhreinindum. Eggerti Péturssyni, listamanninum sem átti verkin í bókinni, sárnaði þessi meðferð á henni. Hin hneykslanlega Fegursta bók í heimi var fjarlægð af sýningunni og í kjölfarið var sýningin að mestu leyti sett upp á öðrum stað til að koma til móts við listamennina sem höfðu sýnt verkið.

Deilurnar sem risu í kjölfarið leiddu í ljós að þarna hafði orðið árekstur tveggja helgra  dóma: Er tjáningarfrelsi listamannsins óháð öðrum siðferðilegum gildum, eins konar heilagur réttur? Eða er bókin helgur gripur, sem einungis varmenni sögunnar hafa vanvirt? Hvað segja þessar spurningar okkur um þjóðareðli Íslendinga?

Deilurnar lognuðust út af án þess að ákveðin niðurstaða næðist en spurningin er enn í fullu gildi. Á þeim tíma sem við nú lifum er bókin í kreppu, ásamt bóklegri hugsun og bókmenningu.  

Fleyg orð

Segja má að í Sjáum-k eg meir um Munin sé almennum vanda bókmenningarinnar teflt gegn netmenningunni í bland við mína persónulegu menningarsýn. Sýningin er nokkurs konar óður til bókarinnar og bókmenningar, íhuguls lesturs og frelsis ímyndunaraflsins.  

Að fljúga flugdreka er ekki að fljúga eins og fugl en með aðstoð ímyndunaraflsins  líkist það því að fljúga eins og fugl. Þannig er það með bókina; þótt hún sé ekki reynslan sjálf, þá líkist hún sjálfri reynslunni með aðstoð ímyndunaraflsins. Það þarf fljúga flugdreka við ákveðnar aðstæður og á ákveðnum tímum annars getur hann ekki flogið. Mun það sama eiga við um bókina?

Það er hægt að komast á Internetið hvenær sem er, næstum alls staðar. Að þessu leyti er netið gætt öðrum eiginleikum en bókin. Muninum mætti lýsa sem veraldlegum tíma og stað annars vegar en heilögum tíma og stað hins vegar. Við gætum gefið bóklestri sérstaka eiginleika eins og við höfum gert helgidaga ólíka öðrum dögum og helga staði ólíka öðrum stöðum.  

Ég er áfjáður í að vita hvort heimsmenningin meti bóklega hugsun svo mikils að sérstakur tími verði helgaður henni. Einkum og sér í lagi langar mig þó að vita hvort Íslendingar eigi eftir að gera það. "

 

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan