Auknar vinsældir Amtsbókasafnsins - það koma fleiri, fá sér meira ... hefur veðrið þessi áhrif?

Það er gaman að segja frá því að útlánum hjá Amtsbókasafninu á Akureyri hefur fjölgað mikið á þessu ári. Apríl, maí og júní í ár hafa til dæmis aldrei verið jafn "sterkir" síðan mælingar hófust.

Júní mánuður árið 2010 varð stærsti júnímánuður okkar með 16509 útlán, en hvað gerist ári síðar? Jú, júní-útlánin í ár urðu hvorki fleiri né færri en 18550!! 12 prósenta aukning - geri aðrir betur!

Ef við kíkjum aðeins nánar á júní-útlánin í ár, þá er aukning á útlánum á öllu safnefni nema hljóðbókum á snælduformi (sem er sennilega mjög eðlilegt). 68% aukning varð í útlánum á mynddiskum, 69% á geisladiskum, 331% á myndböndum (tökum það fram að í ár eru myndbandaútlán ókeypis), 44% á hljóðbókum á geisladiskaformi og 4-10% á bókum og tímaritum.

Vera má að kalt veðrið í júní hafi eitthvað haft að segja um þessar stórglæsilegu tölur, en þá vonum við auðvitað að hlýindin framundan geri það líka.

Lánþegafjöldi 30. júní 2011 var 11.239 og að meðaltali mætti 521 á hverjum degi í júní.

Við þökkum kærlega fyrir okkur og hlökkum til að sjá ykkur sem flest og sem oftast á komandi mánuðum og árum!

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan