Rithöfundarnir Aðalsteinn Ásberg Sigurðsson og Vala Þórsdóttir lesa upp og kynna nýjar bækur sínar, Segðu mér og segðu ... og Tónlist hamingjunnar, á Amtsbókasafninu laugardaginn 21. nóv. kl. 14, en auk þeirra kemur söngvaskáldið Svavar Knútur fram.
---------------------------------------
Nánar um höfundana, bækurnar og flytjendurna:
Segðu mér og segðu ... nefnist nýútkomin ljóðabók Aðalsteins Ásbergs fyrir börn á öllum aldri, en í henni kallast á þjóðleg stef, romsur og óhefðbundin kvæði. Áður hefur Aðalsteinn Ásberg sent frá sér á annan tug frumsaminna og þýddra ljóðabóka, þar á meðal kveðskap fyrir börn í Romsubókinni sem kom út fyrir fáeinum árum. Í haust kom einnig út bókin Beinhvít ljóð með þýðingum hans á úrvali ljóða eftir skáldið Gintaras Grajauskas frá Litháen. Aðalsteinn hefur skrifað margar skáldsögur og smásögur fyrir unga lesendur, auk þess að semja tónlist og fjölda söngljóða sem notið hafa vinsælda.
Tónlist hamingjunnar eftir Völu Þórsdóttur er fyrsta bók hennar, en áður hefur hún getið sér gott orð fyrir leikrit sín bæði hérlendis og erlendis, m.a. einleikinn Háaloft og Eldhús eftir máli, sem sýnt var í Þjóðleikhúsinu. Í Tónlist hamingjunnar eru 52 örsögur sem eiga það sameiginlegt að birta sérkennilega mynd af samtímanum. Persónur og atburðir koma stöðugt á óvart og fáránleikinn er sjaldnast langt undan. Tónlist hamingjunnar kom samtímis út á Íslandi og í Tyrklandi.
Svavar Knútur sendi fyrr á árinu frá sér geisladiskinn Kvöldvöku og hefur gert víðreist með tónlist sína að undanförnu.