Enginn meiri- eða minnihluti í bæjarstjórn Akureyrarbæjar
Kjörnir fulltrúar í bæjarstjórn Akureyrarbæjar hafa ákveðið að afnema minni- og meirihluta í bæjarstjórn það sem eftir lifir kjörtímabils. Markmiðið er að mynda breiða samstöðu vegna sérstakra aðstæðna í kjölfar heimsfaraldurs og í rekstri sveitarfélagsins. Ákvarðanir sem teknar verða munu hafa áhrif á reksturinn til langs tíma og telja kjörnir fulltrúar farsælast á þessum tímapunkti að standa saman að þeim verkefnum sem framundan eru.
Helsta ástæða þess að bæjarstjórn telur þetta raunhæfan kost er að traust og virðing er til staðar á milli allra kjörinna fulltrúa auk þess sem mikill samhljómur er í grundvallar-stefnumálum við núverandi kringumstæður. Samhljómurinn felst í því að verja viðkvæmustu hópa samfélagsins, setja hagsmuni barna og ungmenna í forgang, blása til sóknar á íbúa- og atvinnumarkaði og stefna að því að rekstur sveitarfélagsins verði sjálfbær innan fimm ára. Áfram verður lögð áhersla á gagnrýna umræðu um málefni.
Sú sviðsmynd sem blasir við í rekstri sveitarfélagsins er áður óþekkt. Að hluta til er um tímabundið ástand að ræða og eru kjörnir fulltrúar sammála um að nýta hagstæða skuldastöðu bæjarins og taka lán til framkvæmda. Samhliða lántöku er óhjákvæmilegt að grípa til hagræðingar til þess að ná sameiginlegu markmiði um sjálfbærni í rekstri.
Á þessum tímamótum taka þeir flokkar sem áður voru í minnihluta við formennsku í skipulagsráði, frístundaráði, stjórnum Menningarfélags Akureyrar, Vistorku og Fallorku.
Lagt er af stað í þessa vegferð í þeirri trú að með þessum hætti geti bæjarfulltrúar best þjónað því hlutverki sem bæjarbúar fólu þeim í síðustu sveitarstjórnarkosningum.
Bæjarstjórn Akureyrarbæjar
22.09.2020 - 15:45
Lestrar 44