Hér er að finna helstu upplýsingar tengdar styttingu vinnuvikunnar hjá vaktavinnufólki.
Athugið að þetta er lifandi síða og verður upplýsingum bætt við eftir þörfum.
Nánar um styttingu vinnuvikunnar er að finna á www.betrivinnutimi.is/vaktavinna
Helstu breytingarnar eru að vinnuvikan styttist og launamyndun vaktavinnufólks tekur mið af fleiri þáttum en áður.Vinnuvikan styttist að lágmarki úr 40 í 36 virkar vinnustundir. Viðbótarstytting í allt að 32 virkar vinnustundir er möguleg og grundvallast á mismunandi vægi vinnustunda. Í nýju launamyndunarkerfi fjölgar vaktaálagsflokkum og greiddur er sérstakur vaktahvati sem tekur mið af fjölbreytileika og fjölda vakta.Breytingarnar eru til þess fallnar að auka möguleika vaktavinnufólks til að vinna hærra starfshlutfall en áður og hækka þannig tekjur sínar. Breytingarnar tóku gildi 1. maí 2021.
Útborgun launa og upplýsingar um launaseðil
Starfsmaður á að leita til síns stjórnanda ef það telur sig ekki fá rétta útborgun launa.
Ef stjórnandi þarfnast frekari útskýringa til að geta svarað starfsmanni leitar hann til launafulltrúa.
Ef starfsmaður fær ekki fullnægjandi svör, að hans mati, er honum bent á að hafa samband við sitt stéttarfélag. Ef mál fær ekki úrlausn í samtali starfsmanns og stjórnanda virkjast ferill einstakra mála.
Launaseðill
Helstu breytur sem fylgjast þarf með á launaseðli eru:
- Starfshlutfall ef starfsmaður í hlutastarfi hefur hækkað starfshlutfall sitt
- Yfirvinna
- Vaktaálag
- Bakvaktaálag
- Breytingargjald
Launaseðilillinn minn eftir gildistöku betri vinnutíma í vaktavinnu, sjá leiðbeiningar hér að neðan:
Leiðbeiningar um yfirferð á launaseðli (PDF)
Myndband í formi glærukynningar (myndband)
Glærur þar sem farið er skref fyrir skref í helstu atriði (PDF)
Orlofsskráning hjá vaktavinnufólki
Ávinnsla orlofs miðast við 40 stunda vinnuskyldu þó að vinnutími er orðinn 36 stundir. Þess vegna er úttekt á orlofi meiri en tími á móti tíma í sama hlutfalli og lækkun á vinnuskyldu. Þegar skráð er orlof eftir 1. maí þá er úttektin margfölduð með 1,11.
Dæmi: Fyrir 8 stunda vakt verður úttekt á orlofi 8*1,11 = 8,88
Orlof sumarið 2021
Leiðbeiningar vegna kerfisbreytinga betri vinnutíma í vaktavinnu frá 1. maí 2021
Öll meðhöndlun á orlofstöku fer samkvæmt ákvæðum viðkomandi kjarasamninga og lögum
um orlof nr. 30/1987. Almennt á starfsfólk hjá hinu opinbera rétt á 30 daga orlofi, óháð
starfshlutfalli.
Starfsfólk í hlutastarfi sem hefur valið að hækka starfshlutfall sitt vegna vinnutímabreytinga í
vaktavinnu á rétt á 30 daga orlofi, miðað við árs vinnuframlag en á einungis rétt á greiðslu
sem nemur ávinnslu miðað við fyrra starfshlutfall.
Orlofsréttur starfsfólks er tvískiptur, annars vegar er um að ræða rétt á orlofsdögum og hins
vegar rétt til launa þá daga sem það er í orlofi.
- Ef starfsfólk óskar eftir að taka fullt orlof, 30 daga, skal fyrst ganga á áunnið og ótekið orlof sé það fyrir hendi og skal það greitt í samræmi við starfshlutfall eins og það var á þeim tíma þegar ávinnsla orlofs átti sér stað.
- Ef áunnið orlof er tæmt en starfsfólk hefur ekki náð 30 dögum skal líta á mismuninn milli réttar til orlofs og 30 daga sem launalaust leyfi.
Vaktaálag og vægi vinnustunda
Myndband um vægi vinnustunda og vaktaálag
Vaktaálag greiðist
Vægi vinnustunda
Nýr þáttur í launamyndun í vaktavinnu er að vægi vinnuskyldustunda verður ólíkt.
Þannig telja stundir utan dagvinnutíma meira upp í vinnuskil en stundir á dagvinnutíma.
Fyrir hverja klukkustund á helgar- eða kvöldvakt reiknast þannig 63 mínútur og fyrir hverja klukkustund á næturvakt alla daga vikunnar reiknast 72 mínútur.
Þetta má einnig útskýra með því að segja að fyrir hverja klukkustund á vakt fáist annað hvort 3 mínútur eða 12 mínútur í afslátt af vinnuskyldu. Með þessari viðbótarstyttingu getur vinnuvika vaktavinnufólks styst í allt að 32 tíma eftir því hversu mikið eru unnið utan dagvinnumarka.
Vinnuskil vaktavinnufólks í fullu starfi geta farið í allt að 32 vinnustundir að jafnaði.
Vægi vinnuskyldustunda telst þegar um er að ræða veikindi, veikindi barna og hvíldartíma til að ná lágmarkshvíld
Vægi vinnuskyldustunda telst ekki í öðrum launuðum né ólaunuðum fjarvistum.
Vaktahvati
Myndband um vaktahvata
Vaktahvati greiðist sem hlutfall mánaðarlauna vegna fjölbreytileika og fjölda vakta á skipulagðri vaktskrá. Vaktahvatinn tekur eingöngu mið af skipulögðum vöktum innan vinnuskila.
Vaktahvatinn er búinn til með það að markmiði að jafna vaktabyrði og launamyndun starfsfólks í vaktavinnu og umbuna fyrir fjölbreytileika og fjölda vakta utan dagvinnutíma.
Vaktahvati greiðist í hlutfalli við starfshlutfall.
85% starfsmaður getur fengið 12,5% vaktahvata en af 85% hlutfalli mánaðarlauna
Orlof er greitt af vaktahvata.
Til að fá vaktahvata þarf starfsmaður að uppfylla eftirfarandi atriði:
- Vinna að lágmarki 42 klst. utan dagvinnumarka
- Vinna að lágmarki tvær tegundur vakta
Vaktir eru flokkaðar í fjórar tegundir vakta; dagvakt, kvöldvakt, næturvakt á virkum dögum og helgarvakt.
- Vinna 15 klst. lágmarksstunda í hverri tegund
- Mæta 14 til 19 sinnum á skipulagða vakt
Á orlofstímabili er mismunandi hvort starfsmaður nær vaktahvata eða ekki en uppfylla þarf skilyrði vaktahvata innan launatímabils.
Fjarvera og vaktahvati
- Í fyrstu viku veikindaforfalla eða þann tíma sem samsvarar til einnar viku vinnuskyldu starfsmanns telja upp í vaktahvata.
- Veikindi barna og fjarvera vegna hvíldartíma telja að fullu upp í vaktahvata.
- Aðrar launaðar fjarvistir teljast sem mæting og tegundin dagvakt.
- Ólaunaðar fjarvistir telja ekki upp í vaktahvata.
Yfirvinna helgidagafrí og breytingargjald
Myndband um yfirvinnu helgidagafrí og breytingargjald
Yfirvinna
Þegar breytingar á vinnutíma vaktavinnufólks tóku gildi 1. maí 2021 breyttust greiðslur fyrir yfirvinnu. Þá verður til yfirvinna 1 og yfirvinna 2.
Yfirvinna skiptist í yfirvinnu 1 og yfirvinnu 2.
Yfirvinna 1 Milli kl. 8 og 17 virka daga
Yfirvinna 2 Eftir kl. 17 virka daga og til kl. 8 virka daga, laugardaga og sunnudaga.
Yfirvinna 2 greiðist fyrir vinnu umfram 38,92 stundir á viku.
Yfirvinna 1, 0,9385% af mánaðarlaunum
Yfirvinna 2, 1,0385% af mánaðarlaunum
Breytingargjald
Breytingargjald miðast við launaflokk og þrep hvers starfsmanns. Eitt gjald greitt óháð starfshlutfalli.
Jöfnun vinnuskila
Frá 1.5.21 er engin vinnuskylda á frídögum sem falla á virka daga.
Helgidagafrí og bæting fellur niður frá 1.5.21 en jöfnun vinnuskila kemur í staðinn.
Æskilegt er að frídagar séu teknir út innan vaktaskýrslu. Ef starfsmaður óskar eftir að taka út frí á öðrum tíma þarf að sækja um það til stjórnanda.
- Að jafnaði skal taka út lækkun á vinnuskilum vegna sérstakra frídaga innan tímabils vaktskrár.
- Starfsmaður getur óskað eftir því að safna upp vinnuskilum vegna sérstakra frídaga og stórhátíðardaga. Óski starfsmaður eftir því skal hann tilkynna sínum yfirmanni um það fyrir framlagningu vaktskrár þegar ávinnsla á sér stað.
- Yfirmanni er skylt að verða við óskum starfsmanns enda verði því viðkomið vegna starfsemi stofnunar.
- Miðað skal við að uppsafnaðir dagar nái ekki yfir lengra tímabil en þörf er á með hliðsjón af óskum starfsfólks og þörfum starfseminnar.
- Á sumarorlofstíma er orlofsúttekt í forgangi umfram uppsöfnun vinnuskila vegna sérstakra frídaga og stórhátíðardaga.
Vaktareiknir
Vaktareiknir á betrivinnutími.is
Vaktareiknirinn gefur vaktavinnufólki kost á að fá glögga mynd af áhrifum kerfisbreytinga í vaktavinnu sem taka gildi 1. maí 2021 á vinnumagn og laun útfrá fyrirliggjandi forsendum hvers og eins.
Í fyrsta skrefi er slegið inn það starfshlutfall sem starfsfólk verður í frá 1. maí 2021 ásamt vöktum sem ná yfir eitt launatímabil / einn mánuð.
Nokkur atriðið sem hafa ber í huga við notkun vaktareiknisins þannig að hann gefi sem besta mynd af áhrifum kerfisbreytinganna á laun eru:
- Fjöldi vakta og vinnustunda sem er sett inn þarf að taka mið af fyrirhuguðu starfshlutfalli frá 1. maí 2021 og vaktaskipulagi á einu launatímabili / einum mánuði. Meðallengd mánaðar er 4,33 vikur og vinnuskylda starfsfólks í 100% starfi er 156 stundir án vægi vinnuskyldustunda.
- Vaktareiknirinn gerir ráð fyrir að vakt byrji á heila eða hálfa tímanum. Dæmi um vakt sem byrjar á hálfa eða heila tímanum er vakt sem hefst annað hvort kl. 08 eða 08.30 og endar ýmist kl. 16 eða 16.30.
- Tvær tölur birtast undir hverri vakt. Sú efri er lengd vaktar sem telst upp í vinnuframlag, sú neðri er fjöldi stunda sem telst upp í vinnuskil a.t.t. vægi vinnuskyldustunda.
- Þegar fyllt er út í vaktaskipulagið sem taka á mið af er hægt að sjá upplýsingar um fjölda vakta, vinnuframlag og stöðu í vinnuskilum neðst á síðunni. Gert er ráð fyrir að staða vinnuskila sé +/- 8 klst. til að hægt sé að fara yfir á næsta skref og sjá niðurstöðu launaútreikninga.
Í skrefi tvö þarft þú að velja stéttarfélag, launagreiðanda, launaflokk og þrep (sjá launaseðil). Þegar það hefur verið valið birtist niðurstöðutafla sem sýnir launamyndun og vinnumagn m.v. þær forsendur sem voru settar inn í fyrri glugga þ.e. starfshlutfall og vaktaskipulag starfsmanns.
Vaktareiknirinn gefur þannig glögga mynd af bæði vinnumagni og launum starfsfólks eftir 1. maí 2021, þegar kerfisbreytingin hefur tekið gildi.
Ath. niðurstaðan sýnir eingöngu þá þætti í launaforsendum sem hafa með kerfisbreytinguna að gera. Aðrar launaforsendur sem starfsfólk kann að búa yfir kunna að haldast óbreyttar eða breytast á öðrum forsendum en vegna vinnutímabreytinga.
Yfirlit yfir breytingar