Stjórnsýslusvið Akureyrarbæjar efnir til teiknisamkeppni í tilefni barnamenningarhátíðarinnar á Akureyri. Kátir krakkar á öllum aldri eru hvattir til þess að taka þátt. Þemað er frjálst en þarf að tengjast Akureyri. T.d hvað þykir þér skemmtilegast að gera á Akureyri? Hvernig er ævintýralegur dagur á Akureyri?
Veitt verða verðlaun fyrir nokkrar fallegar, frumlegar og fjölbreyttar myndir að mati dómnefndar. Myndunum skal skilað á A4 blaði fyrir 22. október í póstkassa ráðhússins á Akureyri, Geislagötu 9.
Með myndinni þarf að koma fram upplýsingar um nafn teiknara, aldur, lýsing myndefnis og farsímanúmer eða netfang forráðamanns. Krakkar sem ekki hafa tök á því að skila teikningunum sínum í póstkassann mega senda mynd af teikningunni í tölvupósti á thjonustuver@akureyri.is. Tilvalið fyrir þátttakendur búsetta í Hrísey og Grímsey.
Myndirnar sem berast í keppnina verða ekki sendar til baka að keppni lokinni heldur verða þær til sýnis upp á vegg í þjónustuveri Akureyrarbæjar sem staðsett er á 1. hæð í ráðhúsinu dagana 26. – 30. október. Haft verður samband við vinningshafa föstudaginn 23. október.
Verðlaunin eru ekki af verri endanum:
- 2 miðar á leiksýninguna Bendikt Búálfur hjá Leikfélagi Akureyrar
- 2 x 5000 kr gjafabréf á Glerártorg
- 3 x gjafabréf á Hamborgarafabrikkuna á Akureyri
- 3 x gjafabréf á Lemon
- 2 x Bíómiði í Borgarbíó
- Sjálflýsandi sundpoki frá Nova
- 3x frímiðar í Sundlaug Akureyrar
- 3x pönnukaka og safi á Kaffi List á Listasafninu á Akureyri + frítt á safnið fyrir foreldra.
...og svo margt margt fleira!
Láttu ljós þitt skína og taktu þátt!
Taktu endilega mynd af teikningunni og deildu henni með fleirum á Facebook eða Instagram #barnamenningak
Verkefnið er styrkt af Akureyrarbæ og ábyrgðaraðili er Tinna Stefánsdóttir verkefnastjóri, tinnas@akureyri.is