Verkefnisstjórn um vinnumat grunnskólakennara

Samband íslenskra sveitarfélaga og Félag grunnskólakennara (FG) undirrituðu kjarasamning þann 20. maí sl. Ein helsta nýjungin í þeim samningi felur í sér gerð nýs vinnumats kennara þar sem metinn verður sá tími sem kennari ver til skilgreindra verkefna. Byggt verður viðmiðum sem lögð verða til grundvallar mati á umfangi kennslu, undirbúnings, námsmats, umsjónar og þverfaglegs samstarfs. Vegna samsetningar og fjölda í nemendahópi, skráninga, skýrsluvinnu og foreldrasamskipta svo dæmi séu tekin.

Verkefnisstjórn hefur verið skipuð sem hefur yfirumsjón með gerð leiðarvísis um vinnumat og mun styðja við innleiðingu þess í grunnskólum.  Hana skipa 6 aðalmenn, 3 frá FG og 3 frá sambandinu, auk áheyrnarfulltrúa Skólastjórafélags Íslands (SÍ).

Helstu verkefnin verða:

  • að skilgreina inntak og umfang einstakra hluta vinnumatsins
  • að vinna leiðarvísi með sýnidæmum 
  • að styðja við innleiðingu
  • að veita álit og ráðgjöf
  • að safna í gagnabanka þekkingu og lausnum sem verða til.

Drög að leiðarvísinum eiga að liggja fyrir þann 1. nóvember 2014 en þá tekur við kynningar- og umsagnarferli út janúarmánuð 2015. Leiðarvísir um vinnumat verður lagður undir atkvæði samningsaðila í síðasta lagi 20. febrúar 2015.

Verkefnisstjórnina skipa af hálfu FG: Guðbjörg Ragnarsdóttir, varaformaður FG og Rósa Ingvarsdóttir, grunnskólakennari en FG á eftir að skipa þriðja aðila sinn. Fyrir hönd sambandsins eiga Ragnar Þorsteinsson, fræðslustjóri, Helgi Grímsson, skólastjóri og Karl Frímannsson, þróunarstjóri sæti í verkefnisstjórn. Auk þess situr Svanhildur M. Ólafsdóttir, formaður SÍ í verkefnisstjórn sem áheyrnarfulltrúi. Svandís Ingimundardóttir, skólamálafulltrúi sambandsins, er starfsmaður verkefnisstjórnar.

Verkefnisstjórn kom saman til fyrsta fundar 11. júní sl. þar sem m.a. var ákveðið að koma upp heimasíðu verkefnisstjórnar þar sem hægt verður að fylgjast með framgangi starfsins.Fundargerðir verða settar inn á síðuna og auk þess verður hægt að senda inn fyrirspurnir og hugleiðingar til verkefnisstjórnar. Þar verður jafnframt safnað saman í gagnabanka þekkingu og lausnum sem verða til. Næsti fundur verkefnisstjórnar verður heils dags vinnufundur þann 27. júní og vikulega eftir það að loknum sumarleyfum frá og með 12. ágúst.

Hér má finna fundargerðir verkefnisstjórnar.

 

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan