Hér kemur heilsupistill desembermánaðar frá Heilsuvernd
Já jólin eru á næsta leyti og ef fer sem horfir ættum við að geta horft björtum augum til næsta árs þar sem bólusetning gefur okkur vonir um að lífið geti færst aftur í eðlilegra horf.
En um leið og við eigum að vera bjartsýn þá megum við ekki gleyma okkur í gleðinni. Munum að halda áfram reglurnar og fara að fyrirmælum sóttvarnateymisins okkar frábæra sem hefur jú fylgt okkur af öryggi í gegnum þetta ár.
Gætum að sóttvörnum í verslunarferðum, nýtum netverslum eða reynum að skipuleggja innkaup þannig að við þurfum sem minnst að bíða í röðum eða vera í mannmergð.
Jólahlaðborð og jólatónleikar heima í stofu í kósýheitum verður þema aðventunnar í ár. Þeir sem vilja geta klætt sig í sparigallann en hinir geta notið góðs matar í kósýgallanum.
Í staðinn höfum við tækifæri til að njóta enn fleiri tónleika og viðburða heima í stofu en áður þar sem kostnaðurinn er minni. Það nærir sálina og um leið styrkjum við hæfileikaríka tónlistarfólkið okkar sem hefði annars fá verkefni.
Gætum að fjarlægðartakmörkunum, höldum jólaboðunum fáum, fámennum en góðmennum og nýtum þess í stað tæknina. Fjölskylduboðið á annann í jólum verður í fjarfundi í ár en með góðri skipulagningu er hægt að búa til skemmilega stund eftir sem áður. Hægt er að skipuleggja ýmsa leiki eða keppnir á milli fjölskyldna eða hver fjölskylda komi með skemmtiatriði sem hægt er að flytja yfir skjáinn.
Notum hugmyndaflugið til góðra verka, ekki til þess að fara framhjá reglum og tilmælum heldur til þess að finna út hvernig við getum gert gott úr stöðunni. Það koma alltaf aftur jól og hver veit nema við eigum eftir að minnast jólanna 2020 sem jóla samveru og upphaf nýrra hefða.