Streituráð í desember

Heilsupistill Heilsuverndar í desember fjallar um streituráð.

Aukum hvíld og svefn!

Ekkert ráð er betra gegn kulnun og sjúklegri streitu en góð hvíld. Auðvelt er að stunda "daghvíld" á vinnutíma með því að gera stutt hlé og slaka á líkamanum, róa öndunina og kyrra hugann. Svo er bara að láta fara vel um sig eftir vinnu. Mikilvægt er að fá ekki samviskubit yfir aukinni hvíld og gæta vel að svefni. Gott ráð á álagstímum er að fara fyrr en venjulega í háttinn.

Réttum hjálparhönd!

Vísindalegar rannsóknir sýna að það styrkir heilsu þess sem veitir og örvar hormóna- og taugakerfi bæði veitenda og þiggjenda. Með öðrum orðum: Hjálpsemi og gæska eflir heilann og styrkir hópinn.

Sækjum stuðning!

Allir þurfa einhvern tíma á stuðningi, hvatningu eða ráðum að halda. Mikilvægt er þiggja slíkt og ef vanlíðan er farin að skjóta rótum þá er mikilvægt að hika ekki við að leita sér hjálpar því góð ráð og áhrifaríkar meðferðir eru til.

Hreyfum heilann!

Mátuleg hreyfing, t.d. 20-30 mínútna dagleg gönguferð styrkir taugavefinn. Heilinn vex og tengingar taugafrumnanna styrkjast og heilastarfsemin eflist. Minni og einbeiting batna, einkenni um depurð og kvíða dvína og góð vörn myndast gegn kulnun og sjúklegri streitu.

Verndum heilann!

Hæfilega ögrandi verkefni efla og styrkja taugabrautirnar. Að glíma reglulega við krossgátur, orðaleiki, upprifjun skólaljóða eða læra nýtt tungumál eru dæmi um áhrifamikla heilaleikfimi. Hekl og prjón og flestar hannyrðir eru bráðhollar og virkja samvinnu ólíkra heilasvæða. Aftur á móti getur áfengi, svo ekki sé talað um eiturlyf, haft verulega neikvæð áhrif á heilavefinn og þar með starfsemi heilans.

Á endanum ert það þú sjálf(ur) sem berð ábyrgð á þér og þinni heilsu. Þú ein(n) ræður hvernig þú tekst á við streitu og hvaða kröfur þú setur á sjálfa(n) þig. Greindu álagsþætti þína og skapaðu þér lífsstíl og varnamúr svo þú sért fljót(ur) að ná þér út úr kulnun þegar það gerist og þurfir aldrei að glíma við sjúklega streitu.

Það er ekki eftir neinu að bíða-byrjaðu strax í dag.

Gangi ykkur vel!

Ólafur Þór Ævarsson, geðlæknir

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan