Starfsmenn grunnskólanna á námskeiði í Símey

Sjötta árið í röð sóttu starfsmenn grunnskóla Akureyrarbæjar námskeið í SÍMEY á starfsdögum skólanna í ágúst. Mikil ánægja hefur verið með þetta námskeið og má segja að það sé orðið hluti af starfsdögum grunnskólanna.

Námskeiðið er hluti af fræðsluáætlun sem skipulögð var í samstarfi við SÍMEY í kjölfar MARKVISS þarfagreiningarverkefnis fyrir starfsfólk skólanna. Tilgangurinn með námskeiðinu er að efla og hvetja starfsmenn í kröfuhörðum störfum fyrir komandi vetur.

Námskeiðið var haldið dagana 17. til 20. ágúst og í þetta sinn tóku um 120 starfsmenn þátt í níu klukkustunda námskeiði þar sem meðal annars var fjallað um samskipti á vinnustað, frímínútnagæslu og leikjastjórnun, og reiðistjórnun/agastjórnun. 

Auk þess bauðst öllum þátttakendum að sækja viðtal hjá náms- og starfsráðgjafa til að skoða frekari möguleika til sí- og endurmenntunar að námskeiði loknu.

Styrktaraðilar námskeiðsins eru fræðslusjóðirnir Mannauðssjóður Kjalar og Sveitamennt.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan