Starfsmannakönnun send út í dag

Föstudaginn 22. febrúar var send út spurningakönnun til allra starfsmanna Akureyrarbæjar sem eru í meira en 30% starfshlutfalli. Könnunin verður send á netföng starfsmanna en þeir sem hafa ekki netföng munu fá upplýsingar um það á vinnustað sínum hvernig þeir geta svarað könnuninni.

Í könnuninni er spurt um líðan, heilsu og starfstengd viðhorf starfsfólks sveitarfélagsins. Sams konar könnun var gerð árið 2010 og árið 2011 og eru kannanirnar hluti af doktorsverkefni Hjördísar Sigursteinsdóttur í félagsfræði við Háskóla Íslands. Með könnuninni er einnig verið að uppfylla markmið í mannauðstefnu og jafnréttisstefnu Akureyrarbæjar.

Starfsfólk er vinsamlega beðið um að svara spurningalistanum eins ítarlega og það treystir sér til. Það tekur u.þ.b. 10-15 mínútur.

Könnunin veitir mikilvægar upplýsingar sem gagnast til að stuðla að bættu starfsumhverfi. Í kjölfar fyrri kannana var skipaður sérstakur starfshópur sem fékk það verkefni að fylgja niðurstöðum eftir og gera tillögur um aðgerðir. Starfshópurinn hefur t.a.m. komið á námskeiðum um starfsmannasamtöl fyrir stjórnendur og stuðlað að því að boðið verði upp á fræðslu um vellíðan á vinnustað og viðbrögð við einelti á vinnustöðum bæjarins.

Í síðustu könnun var svarhlutfall nokkuð gott eða um 68%. Niðurstöður gáfu þar af leiðandi góða vísbendingum um líðan starfsfólks Akureyrarbæjar. Þegar á heildina er litið voru niðurstöður könnunarinnar ánægjulegar og virðist starfsfólk Akureyrarbæjar almennt ánægt í starfi. Niðurstöður gáfu til kynna að 85,8% starfsmanna sé mjög eða frekar sammála fullyrðingunni „Þegar á heildina er litið er ég ánægð(ur) í starfi mínu“. Skoða má niðurstöður fyrri kannana í starfsmannahandbókinni á vefnum.

Starfsfólk er eindregið hvatt til þess að svara spurningalistanum og leggja þannig rannsókninni lið og stuðla að bættu starfsumhverfi fyrir starfsfólk Akureyrarbæjar.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan