Skráning hafin á Skólaþing sveitarfélaga 2013

Skráning er hafin á Skólaþing sveitarfélaga 2013 en það verður haldið á Hilton Nordica hóteli mánudaginn 4. nóvember nk. Halldór Halldórsson, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, setur skólaþingið en meðal fyrirlesara má nefna Anders Balle, formann danska skólastjórafélagsins, Illuga Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra og Ingvar Sigurgeirsson, prófessor við menntavísindasvið Háskóla Íslands.

Nánar um skólaþingið

Fyrri hluta þingsins verður sjónum beint til Danmerkur. Formaður danska skólastjórafélagsins, Anders Balle, upplýsir þinggesti um þær umfangsmiklu breytingar sem danski grunnskólinn er að ganga í gegnum, þ.m.t. á vinnutímaskipulagi kennara, í kjölfar nýrrar menntastefnu stjórnvalda og verkbanns á kennslu sl. vor sem leiddi loks til lagasetningar. Formaður Skólastjórafélags Íslands mun bregðast við ásamt bæjarstjóra. Að loknum fyrirspurnum til fyrirlesara morgunsins fara fram umræður á borðum þátttakenda.
Eftir hádegið, að loknu ávarpi mennta- og menningarmálaráðherra, verður athygli beint að kennaramenntun, áhrifum sveitarstjórna á grunnskólann, hljóðvistarmálum í leikskólum og „tossum“. Í 3. og síðasta hluta skólaþings verða boðin nokkur stutt erindi (10 mín.) undir yfirskriftinni skóli og samfélag. Greint verður frá samstarfsverkefnum vinnuskóla við annars vegar fyrirtæki og hins vegar verkmenntaskóla, gangi skólahalds á Tálknafirði þar sem eini skólinn er samrekinn „samningsskóli“ og reynslu borgarinnar af samkomulagi um eflingu tónlistarfræðslu.
Skólaþingið er ætlað sveitarstjórnarmönnum, skólaskrifstofum, skólanefndum og fulltrúum skólastjórnenda, kennara og foreldra auk annarra áhugasamra um skólahald og skólarekstur sveitarfélaga.
Dagskrá skólaþings og skráning.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan