Lífshlaupið verður ræst miðvikudaginn 2. febrúar og stendur til 22. febrúar.
Heilsuráð Akureyrarbæjar hvetur alla vinnustaði Akureyrarbæjar til að taka þátt í vinnustaðakeppni Lífshlaupsins 2022. Nú sem aldrei fyrr er mikilvægt að huga vel að bæði andlegri og líkamlegri heilsu. Hugum að heilsunni og verum dugleg að hreyfa okkur reglulega, munum að allt telur.
Heilsuráð mun veita viðurkenningar til vinnustaða Akureryarbæjar sem sigrar í keppninni um flesta daga og flestar mínútur. Líkt og í fyrra verða einnig sérstök útdráttarverðlaun á vegum Heilsuráðs en það þýðir að allir starfsmenn Akureyrarbæjar sem eru skráðir, hreyfa sig og skrá hreyfinguna í Lífshlaupið eiga möguleika á að vera dregnir út og fá vinning! Ef starfsmaður hreyfir sig t.d. alla 20 dagana (og skráir) þá fer nafn hans 20 sinnum í pottinn!
Starfsmenn skrifstofu fræðslusviðs komu, sáu og sigruðu báðar keppnir Lífshlaupsins í fyrra með flesta daga og flestar mínútur. Að launum fékk skrifstofa fræðslusviðs bikarana tvo. Hvaða vinnustaður verður með flestu dagana? Hvaða stafsmenn fá útdráttarverðlaun? Þetta er æsispennandi!
Hvernig skrái ég mig?
Hver vinnustaður sér um að skrá sig til leiks. Þá stofnar einn starfsmaður vinnustaðinn í kerfinu og þarf að nota sína kennitölu. Síðan geta deildir, hæðir og slíkt skráð lið undir hvern vinnustað. Þá er einn liðsstjóri sem getur m.a. fylgst með hvernig gengur, hvatt vinnufélagana áfram og jafnvel haldið utan um að skrá alla hreyfingu þátttakanda.
Þeir sem ætla að taka þátt þurfa að fara inn á heimasíðu lífshlaupsins www.lifshlaupid.is og skrá sig inn. Farið er í Mínar síður og fylgt fyrirmælum sem fram koma. Einnig eru ítarlegar leiðbeiningar undir Skrá mig til leiks sem má finna undir Keppnir og Vinnustaðakeppni. Þeir sem eiga aðgang í Hjólað í vinnuna geta nota hann. Gott er að athuga hvort þinn vinnustaður hefur þegar verð stofnaður eða er til í gagnagrunni Lífshlaupsins áður en stofnaður er nýr vinnustaður.
Það þarf að lágmarki að hreyfa sig í 30 mínútur á dag til þess að fá daginn skráðan en það má skrá allan tímann (mínútur) sem maður hreyfir sig viðkomandi dag. Það er ekki nauðsynlegt að skrá sig inn daglega en best er að skrá jafnt og þétt á meðan á vinnustaðakeppninni stendur. Nú er hægt að sækja sér sérstakt LífshlaupsAPP sem einfalda skráningu á allri hreyfingu.
Nánari upplýsingar má finna á www.lifshlaupid.is