Orð mánaðarins er þreyja.
Sögnin að þreyja þýðir að bíða eftir einhverju, þrauka, halda eitthvað út eða þola tímabundna erfiðleika.
Ég þreyi, hann þreyir, hann þreyði, hann hefur þreyð.
Dæmi: hann átti erfitt með að þreyja fangavistina.
Að þreyja þorrann: áður fyrr, þegar fólk bjó ekki jafn vel og nú, kalt var í húsum og matur og hey oft af skornum skammti, gátu þorrinn og góan reynst mörgum erfiðir mánuðir. Þá þurftu menn að þreyja þorrann og góuna en eftir það fór daginn að lengja verulega og styttast tók í sumarið. Síðar er farið að nota orðasambandið í yfirfærðri merkingu um að 'þola tímabundna erfiðleika'.
Höfum við ekki öll gott og gaman af því að bæta orðaforðann okkar. Þessi fréttaliður á starfsmannavefnum er til þess gerður að auka orðaforða okkar og skorum við á starfsmenn að taka upp nýtt orð hvern mánuð fyrir sig.
Við hvetjum starfsfólk til þess að senda okkur skemmtileg orð eða orðatiltæki á starfsmannahandbok@akureyri.is