Myndlistarsýning eftir listakonuna Jóhönnu Báru Þórisdóttur í Bæjarstjórnarsalnum.

Opnuð hefur verið myndlistasýning eftir listakonuna Jóhönnu Báru Þórisdóttur í Bæjarstjórnarsalnum á 4. hæð í Ráðhúsinu.

Jóhanna Bára er starfsmaður Akureyrarbæjar og í tilefni af hálfrar aldar afmæli hennar var hún með listasýningu í Deiglunni í sumar. Eftir áskorun frá samstarfsfólki tók hún þá ákvörðun að hafa myndir sínar til sýnis í bæjarstjórnarsalnum.

Jóhanna leggur áherslu á litagleði og húmor í allri sköpun sem endurspeglast vel í myndlist og handverki hennar. Hún hefur í nokkur ár málað myndir af afturendum íslenskra húsdýra sem hún kallar rassar í sveit.  Að þessu sinni gerir hún tilraun til að brjótast út úr því formi en hún er ennþá nátengd náttúrunni og má sjá norðlensku fjöllin í mörgum verka hennar. Hún leikur sér með form og liti og reynir að skapa róandi stemmingu með mildum litum. Áhorfandinn fær frelsi til að túlka myndefnið og fær nú að ráða hvort rassarnir í sveitinni eru með á myndinni eða ekki. Að auki tekur hún nokkur skref inn í bæinn og skoðar hús og blokkir og leikur sér með sterka og bjarta liti.

 

 

Nánari upplýsingar um myndirnar er hægt að nálgast hjá Jóhönnu á netfangið: johannath@akureyri.is

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan