Ársreikningar Akureyrarbæjar fyrir árið 2021 voru lagðir fram í bæjarráði í síðustu viku. Rekstur samstæðu Akureyrarbæjar gekk vel, var betri en áætlanir gerðu ráð fyrir, og var Akureyrarbær rekinn með 752 millj. kr. afgangi. Sjóðstreymið var mun betra en árið áður.
Hér má sjá fréttina í heild sinni; https://www.akureyri.is/is/frettir/mikill-vidsnuningur-til-hins-betra-i-rekstri-akureyrarbaejar
Í kjölfarið sendi bæjarstjóri bréf til allra stjórnenda Akureyrarbæjar þar sem þeir eru hvattir til þess að koma þökkum áfram til allra starfsmanna fyrir vel unnin störf;
Sæl og blessuð!
Ársreikningur Akureyrarbæjar fyrir 2021 var lagður fram í bæjarráði í morgun. Niðurstaðan er afar ánægjuleg en sveitarfélagið var rekið með ríflega 700 milljóna króna afgangi. Þetta er mikill viðsnúningur þar sem áætlanir gerðu ráð fyrir ríflega milljarði króna í halla.
Ástæður þessa góða árangurs eru nokkrar en fyrst og fremst vil ég þakka ykkur, stjórnendum hjá Akureyrarbæ, fyrir að hafa lagt ykkar lóð á vogaskálarnar. Þið eigið sannarlega hrós skilið fyrir metnaðarfulla, ábyrga og skilvirka stjórnun á erfiðum tíma. Síðustu ár, sem gjarnan hafa verið kennd við covid, hafa verið okkur áskorun og við þurftum að leita leiða og leggjast öll á eitt til þess að skila sem bestu búi. Það skiptir einnig gríðarlegu máli að skatttekjur af útsvari reyndust mun hærri en áætlað var og minni aukning lífeyrisskuldbindinga en gert var ráð fyrir. Við finnum fyrir kraftinum í samfélaginu og framtíðin hér á Akureyri er svo sannarlega björt.
Það er mikilvægt að þakka fyrir og hrósa því sem vel er gert og það er einmitt raunin núna. Því langar mig að biðja ykkur sem stjórnendur að koma þökkum mínum áfram til ykkar góða starfsfólks, því það er jú starfsfólkið, sem náði þessum árangri undir ykkar styrku stjórn.
Bestu kveðjur,
Ásthildur