Kveðja frá bæjarstjóra

Kæra samstarfsfólk,

Á bæjarstjórnarfundi í gær var samþykkt tillaga um sameiningu fjölskyldusviðs og búsetusviðs í velferðarsvið og tekur sameiningin gildi 1. janúar 2021. Markmiðið með sameiningunni er að bæta velferðarþjónustuna og gera hana notendavænni, auka skilvirkni, lækka rekstrarkostnað og nýta betur möguleika stafrænnar þróunar.

Þetta er stórt og mikið verkefni og hefur undirbúningurinn staðið yfir í nokkurn tíma þar sem m.a. er búið að kortleggja velferðarþjónustuna og stjórnkerfið. Rætt hefur verið við notendur og lykilstarfsfólk en alls hafa rúmlega 150 manns komið að vinnunni með einum eða öðrum hætti. Framundan er mikil og spennandi vinna við að innleiða þverfagleg umbótaverkefni og þjónustuferla út frá þörfum notandans, sem eru jafnframt í takti við þá stafrænu þróun sem á sér stað í samfélaginu og Akureyrarbær vill leggja áherslu á.

Ég vil líka nefna þá miklu áskorun sem velferðarsvið og önnur svið bæjarins sem vinna að velferðarmálum standa frammi fyrir við innleiðingu á nýjum farsældarlögum sem snúa að samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna en það er langtímaverkefni sem við þurfum að vanda okkur mikið við.

Sviðsstjóri á velferðarsviði verður Guðrún Sigurðardóttir en hún hefur gegnt stöðu sviðsstjóra á fjölskyldusviði. Ég óska henni og starfsfólki á nýju sameinuðu velferðarsviði til hamingju og megi þetta verða okkur og þeim sem þurfa á þjónustu okkar að halda til heilla.

Sameining þessara mikilvægu sviða í starfi og þjónustu Akureyrarbæjar er að sjálfsögðu stórfrétt en það er líka stórfrétt að síðustu dægrin hefur ekkert nýtt Covid-19 smit greinst á Akureyri. Einn bættist við í einangrun hjá okkur í fyrradag en mér skilst að hann hafi komið að utan og greinst á landamærum. Nú eru sex í einangrun hér á Akureyri sem sýnir að okkur hefur tekist vel að halda veirunni vel í skefjum þótt hún sé því miður enn í nokkrum vexti á landsvísu. Ég vil hvetja okkur öll til þess að halda áfram að gera svo vel sem raun ber vitni í sóttvörnum.

Enn og aftur vil ég hrósa ykkur-frábæru starfsfólki Akureyrarbæjar-fyrir árvekni og langlundargeð í baráttunni við vágestinn Covid-19. Ég veit að það eru allir orðnir þreyttir en við getum þetta saman.

Hlýjar kveðjur til ykkar allra,
ÁS

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan