Hvað er að frétta af Lundarskóla?

Að þessu sinni fengum við að skyggnast inn í starfsemi Lundarskóla. Elías Gunnar Þorbjörnsson skólastjóri sagði okkur frá starfseminni og daglegu lífi í Lundarskóla þessa dagana.

Úr Lundarskóla er bara nokkuð gott að frétta, sólin að hækka á lofti, Covid á undanhaldi og bjart framundan.

Starfið í skólanum hefur litast af bæði Covid og svo einnig heilmiklum framkvæmdum sem standa yfir um þessar mundir.

Við höfum þurft að vera í allskonar hólfum og hópum í vetur og mér telst til að núna séum við í skólastarfi 8.0 í vetur. Það er reglulega verið að gera breytingar á reglum um skólastarf og vonandi losnar enn um nú um mánaðarmótin. Hjá nemendum er lífið farið að ganga sinn vanagang og skólastarfið komið í nokkuð fastar skorður þó svo að bæði árshátíð og foreldraviðtöl hafi verið á rafrænu formi nú á vordögum. Covid hefur verið jákvætt á þann hátt að við höfum lært á nýja tækni og lært að nýta hana í starfinu, bæði með nemendum og starfsfólki. Svo ekki var allt slæmt við Covid. Starfsfólki er þó enn skipt á kaffistofur og eru hámark 20 saman með kaffistofu, við erum að þessum sökum með þrjár kaffistofur hér við Dalsbraut og þá fjórðu í Rósenborg og á milli þeirra er lítill sem engin samgangur. Það verður því kærkomið að fá að sameina kaffistofur á ný.

 

Auk Covid þá hefur skólinn verið á tveim stöðum í vetur vegna framkvæmda og verður það eins næsta vetur. Hér við Dalsbraut er 1. - 6. bekkur með sína aðstöðu en 7. - 10. bekkur auk list- og verkgreina er staðsettur í Rósenborg eða gamla Barnaskóla Íslands. Þetta hefur gengið mjög vel og hafa bæði nemendur og starfsfólk aðlagast mjög vel að þessum breytingum. Þetta kemur til þar sem að verið er að endurnýja kennsluálmur skólans, í vetur er A álman í endurgerð og verður því verki lokið nú síðla vors. Næsta vetur verður svo B álman tekin og endurgerð og á þeirri framkvæmd að vera lokið vorið 2022. Haustið 2022 verður þá allur skólinn komin undir eitt þak.

Annars hefur skólastarfið gengið ótrúlega vel og hafa nemendur, foreldrar og starfsfólk komið saman til að gera skólastarfið eins gott og hægt hefur verið á þessum skrítnu tímum og fyrir það erum við þakklát.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan