Heilsuráð Akureyrarbæjar veitti nýlega fjórum stofnunum bæjarins viðurkenningar fyrir þátttöku í Hjólað í vinnuna sem fór fram 5. - 25. maí.
Stofnanirnar sem hlutu viðurkenningu áttu það allar sameiginlegt að komast á lista yfir 10 efstu lið í sínum flokki á landsvísu (sjá sæti og heildarfjölda í sviga). Viðurkenningu heilsuráðs hlutu Leikskólinn Kiðagil (#10/109), Síðuskóli (#6/70), Oddeyrarskóli (#6/85) og Leikskólinn Pálmholt (#5/85). Flottur árangur hjá frábærum starfsmönnum og við þetta má bæta að næst flest lið voru skráð til leiks innan okkar sveitarfélags (75 stk) og var Akureyri þar langt á undan okkar samanburðarsveitarfélögum! Vel gert við!
Heilsuráð óskar starfsmönnum ofantaldra stofnana til hamingju með góðan árangur í Hjólað í vinnuna 2021 sem og þakkar öllum öðrum sem tóku þátt fyrir þeirra framlag. Allir þátttakendur eru sigurvegarar í þessari heilsueflingu þar sem bætt heilsa eru hin æðstu verðlaun.
Takk til þátttakenda fyrir að vera öðrum til fyrirmyndar og hvatningar til að halda áfram að hlúa að hreyfingu og heilsueflingu inn í sumarið og að eilífu.
Meðfylgjandi eru myndir af fulltrúum þessara fyrirmyndarhjólara.
Góðar stundir og betra sumar!
Heilsuráð Akureyrarbæjar