Sífellt fleiri nota þjónustugáttina

Í þjónustugáttinni er meðal annars hægt að sækja um leyfi til dýrahalds.
Í þjónustugáttinni er meðal annars hægt að sækja um leyfi til dýrahalds.

Umsóknum í gegnum þjónustugátt Akureyrarbæjar hefur fjölgað mikið að undanförnu, samhliða auknum nýtingarmöguleikum. Mikil áhersla er lögð á að bæta rafræna þjónustu sveitarfélagsins og að þjónustugáttin sé meginfarvegur fyrir afgreiðslu erinda.

Á tímabilinu 1. júní til 14. október sl. bárust 2.600 umsóknir í gegnum þjónustugátt. Það eru fleiri umsóknir en allt árið í fyrra og ríflega tvöfalt fleiri umsóknir en árið 2018.

107 umsóknarform

Möguleikar til að nota þjónustugáttina hafa líka aukist stórlega, enda hefur starfsfólk bæjarins lagt kapp á að koma umsóknum um fjölbreytta þjónustu, styrki, leyfi og fleira á rafrænt form og á einn stað.

Umsóknarformin í þjónustugáttinni eru nú 107 talsins, en 52 ný form bættust við í fyrra og heldur þeim áfram að fjölga.

Hvaða umsóknir eru þetta?

Umsóknarformin tilheyra öllum sviðum bæjarins. Skipulags- og byggingarmál eru fyrirferðarmikil, en rafrænar umsóknir um leik- og grunnskóla fara einnig í gegnum gáttina, leyfi til dýrahalds og umsóknir um leiguhúsnæði á vegum sveitarfélagsins svo nokkur dæmi séu nefnd. Meðal nýjunga í þjónustugáttinni er umsóknarform vegna fjárhagsaðstoðar.

Þjónustugáttin einskorðast hins vegar ekki við umsóknir, því þar er einnig hægt að fylgjast með afgreiðslu erinda sinna, nálgast yfirlit reikninga (til dæmis vegna fasteignagjalda), upplýsingar um frístundaframboð og sækja um frístundastyrk fyrir börn.

Íbúar og viðskiptavinir sveitarfélagsins eru hvattir til að kynna sér möguleika þjónustugáttar. Ef eitthvað er óljóst eða má betur fara þá er velkomið að senda okkur ábendingu. Það er einmitt hægt að gera í þjónustugáttinni, en líka með því að smella hér.

Kíktu inn fyrir gáttina!

 

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan