Fréttir úr Grímseyjarskóla

Í vetur eru fjórir nemendur í skólanum, fámennt en góðmennt, og allir í eldri deild. Það hefur þau áhrif að hægt er að haga kennslunni á nýjan hátt. Skipulagið sem unnið er eftir er þannig að bókfögin; enska, danska, stærðfræði og íslenska sameinast að miklu leyti í svokallaðar vinnustundir sem ná yfir meirihluta morgnanna, þó eru stýrðir tímar á mánudagsmorgnum og áætlunartími í vikulok svo nemendur og kennarar hafi yfirsýn yfir vikuna. Þá eru nemendur með áætlanir í þessum fögum og vinna þær eftir hentugleika, svo fremi sem þau skili unninni áætlun í vikulok. Þetta er heilmikið frelsi, þar sem nemendur eru ekki skikkaðir í ákveðið fag á ákveðnum tíma og kennir þeim þar að auki að taka ábyrgð á eigin námi. Einn nemandi í 5. bekk bjó til málshátt af þessu tilefni: "Leiðinlegt er betur unnið fyrst". Seinnipart skóladagsins eru svo samfélagsgreinar og list- og verkgreinar, sem eru kenndar í lotum, auk íþrótta þrisvar í viku. Einnig má segja frá því að Grímseyjarskóli hefur tekið upp virka flokkun. Eru komnar sérstakar ruslatunnur fyrir pappír, fernur og plast auk þess sem tilfallandi ál er tekið frá. Lífrænn úrgangur á það svo til að enda í goggi fiðurfénaðs eyjarinnar.

Í sumar var svo settur upp ærslabelgur í Grímsey og eru allir hæstánægðir með hann. Ærslabelgurinn er staðsettur sunnan við skólann og kemur sennilega til með að verða vinsælasta leiktæki barnanna, já og þeirra fullorðnu. Í tilefni 50 ára afmælis Grímseyjarskóla í húsnæðinu Múla, sem haldið var upp á síðasta vor, fékk skólinn gjöf frá fræðslusviði Akureyrarbæjar. Í pakkanum var forláta nýr Ipad sem kemur sér aldeilis vel og Osmo kennsluleikur í upplýsingatækni.

(Skóla-akur, vefrit um skólamál, 8. tbl. 11. árgangur 16. nóvember 2017)

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan