Fasteignargjöldin á vefnum www.eg.akureyri.is

Álagningu fasteignagjalda í Akureyrarkaupstað er lokið og nú verður tekin upp sú nýbreytni að greiðsluseðlar verða ekki sendir út til einstaklinga yngri en 67 ára. Með þessu móti sparast um 2 milljónir króna árlega í pappírs- og útsendingarkostnað. Allir greiðendur geta eftir sem áður séð ógreidda reikninga í heimabanka sínum og einnig skoðað þá á íbúavef Akureyrarbæjar, http://www.eg.akureyri.is/.

Á íbúavefnum getur fólk séð yfirlit yfir öll önnur viðskipti sín við sveitarfélagið, svo sem leikskólagjöld, greiðsluseðla frá Tónlistarskólanum á Akureyri og fleira. Fyrirtæki og einstaklingar 67 ára og eldri geta afþakkað heimsenda greiðsluseðla vegna fasteignagjalda og einnig er hægt að óska eftir að fá þá senda heim.

Yfirlit um álagningu fasteignagjalda ársins verður sent út til íbúa á næstu dögum. Heildarálagning fasteignagjalda í sveitarfélaginu nemur rúmum 2,1 milljarði króna árið 2011. Álagning fyrra árs var tæpur 2,1 milljarður og fasteignagjöld einstaklinga breytast í flestum tilfellum óverulega á milli ára.

Á forsíðu heimasíðu bæjarins er að finna áberandi hnapp sem leiðir fólk inn á íbúavefinn en þar er meðal annars að finna nánari leiðbeiningar um innskráningu á vefinn.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan