Enginn kynbundinn launamunur

Í ljósi umræðna sem skapast hafa í kjölfar nýrrar könnunar BSRB, sem sýnir að kynbundinn launamunur sé síður en svo í rénun, skal áréttað að slíkan launamun hefur ekki verið að finna hjá Akureyrarbæ á undanförnum árum eins og leitt var í ljós með rannsókn RHA árið 2007.

Sú rannsókn sýndi fram á að enginn marktækur munur var á launum kynjanna hjá sveitarfélaginu og síðan hefur verið unnið eftir sömu markmiðum og stefnumótun í launamálum. Því er engin ástæða til að ætla að þetta hafi nokkuð breyst en nauðsynlegt er að kanna það með reglulegu millibili.

Samfélags- og mannréttindaráð samþykkti á fundi sínum 1. ágúst sl. að láta vinna nýja könnun. Rannsókna- og þróunarmiðstöð Háskólans á Akureyri (RHA) mun því í nóvember vinna nýja rannsókn á launum kynjanna hjá Akureyrarbæ og verða niðurstöður þeirrar vinnu kynntar um leið og þær liggja fyrir.

Eiríkur Björn Björgvinsson, bæjarstjóri á Akureyri, segir að sveitarfélaginu sé mikið í mun að staða kynjanna sé jöfn á öllum sviðum og að með rannsókn utanaðkomandi fagaðila verði hægt að birta raunsanna mynd af stöðunni.

Frétt um fyrri rannsókn RHA frá því í febrúar 2008.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan