Byggingarlistaverðlaun Akureyrar 2017

Akureyrarbær hefur frá árinu 2000 veitt viðurkenningu fyrir byggingalist. Í ár var ákveðið að skoða byggingar sem reistar eru með tilliti til þeirrar starfsemi sem fram fer í húsnæðinu. Það var niðurstaðan faghóps og staðfest af stjórn Akureyrarstofu að veita hjúkrunarheimilinu Lögmannshlíð Byggingarlistaverðlaun Akureyrar árið 2017.

Hönnuður Lögmannshlíðar er Fanney Hauksdóttir arkitekt hjá AVH. Húsið var tekið í notkun 1. október 2012 og byggjandi er Akureyrarbær í samráði við Framkvæmdasýslu ríkisins og Velferðarðarráðuneytið en það fyrirtækið SS byggir sem sá um framkvæmdina. 

Á Lögmannshlíð, sem og í öðrum húsakynnum Öldrunarheimila Akureyrar, er starfað samkvæmt Eden hugmyndafræðinni, höfundur hennar er bandaríski læknirinn William Thomas. Hann komst að því með rannsóknum sínum að einmannaleiki, vanmáttarkennd og leiði eru aðalástæður vanlíðunar hjá íbúum öldrunarheimila. Með Eden hugmyndafræðinni er unnið gegn þessum þáttum til þess að auka lífsgæði íbúanna. Það skiptir öllu máli að hver og einn eigi sér líf sem viðkomandi telur vert að lifa og að lífið sé metið gott. Virðing fyrir fólki og umhyggja eru lykilatriði þeirra hugmynda sem liggja á bak við hönnun öldrunarheimilisins Lögmannshlíðar.

Í Lögmannshlíð eru fimm hús, hvert með 9 íbúðum. Í hverju húsi eru sameiginleg rými, eldhús, borðstofa og stofa. Verönd er við hverja íbúð auk þess sem húsin mynda sín í milli skjólgóða inngarða. Húsin fimm eru sjálfstæðar einingar þótt ekki komi það fram í útliti þeirra eða formi og eru þau tengd saman með miðlægum samkomusal og annarri sameiginlegri aðstöðu. Húsið er á einni hæð sem stuðlar að virkum samskiptum og útiveru sem stigar og lyftur gætu annars unnið gegn.

Heimili og umgjörð þess er eitt af lykilatriðum vellíðunar hvers og eins og skiptir fagurfræðileg mótun þar máli. Útfærsla Lögmannshlíðar og innra skipulag styður einstaklega vel við sett markmið um eiginleika hjúkrunarheimilisins. Í hverju húsi er sérstakur heimilisbragur sem stuðlar að samskiptum og gagnkvæmum stuðningi. Sameiginleg rými eru vel mótuð og mynda fallega umgjörð um daglegt líf íbúanna.

Það er einstaklega ánægjulegt þegar vel tekst við og það kom afar skýrt fram í samtölum við hönnuð, forstöðumann Lögmannshlíðar og hjúkrunarforstjóra Öldrunarheimilanna að þetta var mjög faglegt og metnaðarfullt samstarf, þar sem allir lögðu sig fram um að gera vel og rétt að nefna líka þátt Fasteigna Akureyrar sem nú heitir Umhverfis- og mannvirkjasvið.

Það er engum blöðum um það að fletta að Lögmannshlíð er gott dæmi þar sem tekist hefur að móta byggingu og umgjörð um heimili og starfsemi sem mætir metnaðarfullum markmiðum um búsetu aldraðra. 

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan