Bara kölluð Guðrún í vinnunni

Guðrún Sigurðardóttir með sonardóttur sinni Bríeti Gígju Bragadóttur eftir sundferð með ömmu Gígju o…
Guðrún Sigurðardóttir með sonardóttur sinni Bríeti Gígju Bragadóttur eftir sundferð með ömmu Gígju og afa Benna síðla sumars á Seltjarnarnesi.

„Mér hefur alltaf fundist ég vera að gera gagn vegna þess að góð velferðar- og félagsþjónusta skiptir svo miklu máli fyrir íbúa sveitarfélagsins,“ segir Guðrún Sigurðardóttir sem kvaddi velferðarsvið Akureyrarbæjar 14. júní sl. eftir 40 ára farsælt starf.

Yngsta barnabarn Guðrúnar var skírt Gígja í höfuðið á henni. „Já, það hljómar kannski undarlega en vinir og ættingjar kalla mig alltaf Gígju. Ég er bara kölluð Guðrún í vinnunni. Við hjónin erum Gígja og Benni og Vopnfirðingar kalla mig aldrei annað en Gígju.“

Guðrún, eða Gígja, fæddist 1957 á Vopnafirði og er gift Benedikt Bragasyni. Þau eiga tvö börn, Ólöfu Ásu og Braga, sem fædd eru með 13 ára millibili. „Það má eiginlega segja að þau séu tvö einbirni þar sem svo langt er á milli þeirra,“ segir Guðrún kímin. Barnabörnin eru þrjú.

Þau hjónin fluttu til Akureyrar 1984 þegar Guðrún hóf störf hjá Félagsmálastofnun Akureyrarbæjar. Til að byrja með vann hún sem félagsráðgjafi hjá sveitarfélaginu en hefur starfað sem stjórnandi hjá bænum í 36 ár, síðustu árin sem sviðsstjóri fjölskyldusviðs og svo velferðarsviðs þegar það varð til fyrir þremur árum.

„Þetta hefur verið mjög ánægjulegur tími og ég er afar þakklát fyrir að hafa fengið að kynnast svo mörgu frábæru fólki á þessum 40 árum. Það hafa, eins og gefur að skilja, orðið gríðarlegar breytingar í málaflokknum frá því ég kom hingað til starfa. Hér áður fyrr forðaðist fólk það í lengstu lög að leita sér félagslegrar aðstoðar. Það þótti ekki par fínt og fólk upplifði mikla skömm ef það þurfti hjálp frá kerfinu. Núna er fólk miklu betur meðvitað um lagalegan rétt sinn og hikar ekki við að sækja sinn rétt ef svo ber undir.

Þrátt fyrir breytt landslag, flóknari viðfangsefni og miklu meira umfang en áður var þá getum við verið stolt af þeirri velferðarþjónustu sem sveitarfélagið veitir. Það hefur verið lögð mikil vinna og metnaður í þessi mál og að þeim starfar öflugur hópur fagfólks.

Það sem mér finnst þó einna sorglegast við íslenskt samfélag er hvernig við höfum á síðustu áratugum misst tökin á fíkniefnavandanum. Allt í einu er þetta orðið viðvarandi vandamál sem velferðarþjónustan þarf að bregðast við dagsdaglega og sinnir með ýmsum hætti.

En nú er ég hætt og aðrir taka við keflinu. Fyrst var þetta bara eins og að vera í sumarleyfi og mér fannst alltaf að bráðum þyrfti ég að mæta aftur á skrifstofuna. Það var mjög skrýtin tilfinning en þetta venst.

Ég sé bara gullin tækifæri í þeim árum sem fram undan eru og upplifi mikið frelsi í því að vera hætt að vinna. Vonandi getum við hjónin verið meira á faraldsfæti og gefið okkur góðan tíma til að sinna barnabörnunum. Frelsið frá vinnunni gerir okkur kleift að taka skyndiákvarðanir og skjótast hingað eða þangað með stuttum fyrirvara án þess að tala við kóng eða prest,“ segir Guðrún Sigurðardóttir fyrrverandi sviðsstjóri velferðarsviðs Akureyrarbæjar.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan