Nafn: Katrín Reimarsdóttir
Vinnustaður: Velferðarsvið Akureyrarbæjar
Hver eru helstu verkefnin í þínu starfi:
Ég er svo heppin að vera í starfi sem er svo ótrúlega fjölbreytt. Ég er mest að vinna með unga fólkið og reyna að koma þeim í einhverja virkni, er í miklum samskiptum við Fjölsmiðjuna og aðrar stofnanir. Svo er ég mikið að vinna með barnafjölskyldur og er m.a. málstjóri í samþættri þjónustu í þágu farsældar barna. Ég er líka að vinna mikið í SES (samvinna eftir skilnað) og halda námskeið og vera með ráðgjöf. Svo eru þessi skemmtilegu félagsráðgjafaverkefni aldrei langt undan og erum við að þjónusta mjög breiðan hóp fólks. Við afgreiðum fjárhagsaðstoðarumsóknir, gerum endurhæfingaráætlanir og margt fleira.
Eru einhver spennandi verkefni eða nýjungar á þínum vinnustað eða e-ð áhugavert sem þú getur sagt okkur um vinnustaðinn?
Ég nota öll tækifæri sem mér gefast til að segja frá og auglýsa SES (samvinna eftir skilnað) sem við Halldóra lögmaður Velferðarsviðs höldum utan um. Þetta er skilnaðarráðgjöf til foreldra með það fyrir augum að lágmarka áhrif skilnaðar á börn og ungmenni. Á Velferðarsviði skiptist SES í þrennt: hópnámskeið, ráðgjöf og svo rafræn námskeið á heimasíðunni www.samvinnaeftirskilnad.is. Þessi þjónusta er öllum að kostnaðarlausu og hægt að skrá sig á hópnámskeið eða óska eftir ráðgjöf á þjónustugáttinni hjá Akureyrarbæ.
Hver er skemmtilegasta hefðin á þínum vinnustað?
Hlynur Már forstöðumaður hér á sviðinu er að reyna að koma inn þeirri hefð að vinnufélagarnir fari í Karókí fyrsta föstudag í mánuði, hann er ekki alveg að ná að sannfæra okkur hin.
Annars eru hefðirnar í kringum jólin alltaf skemmtilegar, jólapeysudagurinn og smákökusmakkið.
Aðeins um þig?
Ég er félagsráðgjafi og bý á Akureyri með kærastanum mínum, stráknum okkar og hundinum okkar.
Hvað finnst þér skemmtilegast að gera í frítímanum þínum?
Ætli það sé ekki að eyða tíma með fjölskyldu og vinum. Mér finnst mjög gaman að plana eitthvað skemmtilegt með fjölskyldunni um helgar en svo er líka alltaf gaman að skreppa í leikhús, á tónleika eða drykk með góðum vinum.
Hvort finnst þér skemmtilegra að elda eða baka?
Ég þori ekki að segja nokkrum manni frá því hvað mér finnst hræðilega leiðinlegt að elda og sem betur fer á ég kærasta sem er mjög góður kokkur. En ég get alveg bakað og finnst það mun skemmtilegra en að elda.
Áttu einhverja uppáhalds uppskrift sem þú vilt deila með okkur?
Á mínu heimili eru súkkulaðibita muffins það allra vinsælasta (kostur líka hvað það er einfalt – hentar vel fólki eins og mér)
- 2 bollar sykur
- 220 gr smjör
- 2 og ½ bolli hveiti
- 3 egg
- ½ tsk matarsódi
- ½ tsk salt
- 1 tsk vanilludropar
- 200 gr. suðusúkkulaði
- 1 dós hnetu- og karamellu jógúrt
Smjörið og sykurinn er þeytt þar til það er létt og ljóst. Svo er eggjunum bætt í einu og einu. Þá er jógúrtinu bætt í, svo þurrefnunum og að lokum söxuðu súkkulaðinu. Síðan er þetta bakað í 20-25 mín við 190°c.
Hvaða bók ertu að lesa, eða hvaða þætti ertu að horfa á?
Ég er ekkert alltof dugleg að lesa en mér finnst gaman að lesa bækurnar eftir Yrsu. Svo var ég að klára 5. seríu af Virgin River á Netflix, mæli með!