Bæjarins Bestu - Ellert Örn Erlingsson

Nafn: Ellert Örn Erlingsson, forstöðumaður íþróttamála Akureyrarbæjar

Vinnustaður: Íþróttadeild sem er með skrifstofu í Íþróttahöllinni og tilheyrir Fræðslu- og lýðheilsusviði.

Hver eru helstu verkefnin í þínu starfi:

Helstu verkefnin eru bæði og mest í nútíð og framtíð! Mikið um fjölbreytt samskipti við mjög breiðan hóp aðila sem tengjast íþrótta- og lýðheilsumálaflokknum með einum eða öðrum hætti um verkefni sem stuðla að því að gera meira og betur á sviði heilsueflingar í sinni víðustu mynd. Þess á milli er svo að koma verkefnum in motion og sinna öðrum daglegum verkefnum og slökkviliðsstörfum.

 

 

Eru einhver spennandi verkefni eða nýjungar á þínum vinnustað eða e-ð áhugavert sem þú getur sagt okkur um vinnustaðinn?

Íþróttadeildin er mikið í samstarfi við fjöldann og hlutaðeigandi aðila um alls konar verkefni, nýjungar, breytingar og þróun varðandi íþróttir og lýðheilsu. Járnin sem við erum með í eldinum núna og erum að vinna með eru Virk efri ár sem snýr að heilsueflingu eldri borgara, Allir með sem snýr að því að auka þátttöku fatlaðra í íþróttum, Lýðheilsukortið sem snýr að því að bæta lýðheilsu í heilsueflandi samfélagi með sérstaka áherslu á aukna samveru foreldra, barna og ungmenna, vinna við nýja Lýðheilsustefnu Akureyrarbæjar er farin af stað sem verður skemmtilegt ferðalag og svo er ávallt einhver vinna í gangi varðandi uppbyggingu íþróttamannvirkja í bænum hjá okkur sem eru alltaf frábær verkefni.

Hver er skemmtilegasta hefðin á þínum vinnustað?

Ein vika í hverjum mánuði er helguð ákveðnu þema. Í janúar er 80‘s vika, í febrúar er gæludýravika, í mars er hárgreiðsluvika, í apríl er fetishvika, í maí er hjólavika, í júní er jólapeysuviku, í júlí er fjarveruvika, í ágúst er stuttbuxnavika, í september er gleðivika, í október er sparifatavika, í nóvember er matarvika og í desember er húfuvika.

Aðeins um þig?

Generation X módel upprunalega úr Urban Legend hverfinu Breiðholti, 109 Reykjavík. Bjó á Laugarvatni, Þingeyri og Svíþjóð árin 1998-2012 áður en ég flyt til Akureyrar árið 2012. Giftur Þóreyju Sjöfn Sigurðardóttur kennara í Naustaskóla og saman eigum við fjögur börn á aldrinum 10-19 ára. Innri áhugahvötin kallar á hreyfingu og lífsgleði sem ég reyni eftir lengsta og mesta megni að uppfylla daglega.

Mottó: Trúi því þangað til ég dey að hreyfingin og hláturinn lengi lífið!

Hvað finnst þér skemmtilegast að gera í frítímanum þínum?

Samvera með fjölskyldumeðlimum, fylgjast með börnunum í leik og starfi, sjá sigursælasta knattspyrnulið enska boltans, Liverpool leika listir sínar, rækta líkama og sál í sem víðasta skilningi, hitta skemmtilegt fólk og njóta staðar, stundar og lífsins… þetta er ekki flókið!

Hvort finnst þér skemmtilegra að elda eða baka?

Þessi er erfið og kallar á endurskilgreiningu á orðinu skemmtun! Þetta er eiginlega stórmeistarajafntefli! Það yljar ávallt við hjartarætur þegar mér tekst að elda og baka eitthvað sem fellur í kramið hjá matmálsmeðlimum.

Áttu einhverja uppáhalds uppskrift sem þú vilt deila með okkur?

Fiskréttur Beggu og Árna.

Magn, mælieiningar og tími er leyndarmál sem ég man ekki en allir geta leyst!

 

Notast við þorsk sem er kryddaður með salti, pipar, fiskkryddi og aromati.

Steiki fiskinn létt (rétt til að loka) og set í eldfast mót. 
Steiki beikon á sömu pönnu. Sker það í litla bita og legg til hliðar.

Á pönnuna fer svo rjómi. Set niðursoðna ananas bita og beikonið út í rjómann á pönnunni.

Fæ upp suðu á rjómanum á pönnunni og helli því yfir fiskinn í eldfasta mótinu.

Inn í ofn þangað til þetta lítur út fyrir að vera tilbúið.


Soðnar kartöflur er gott meðlæti en ennþá mikilvægara er salatið með þessu sem er vatnsmelona sem er skorin í litla

bita og steinselja klippt út á og yfir aldinkjöt vatnsmelonunnar.

Hvaða bók ertu að lesa, eða hvaða þætti ertu að horfa á?

Hef ekki fundið bókasafnskortið mitt í langan tíma og hef því einbeitt mér að sjónvarpsefni. Hef verið að þurrka upp allar seríurnar 

af bresku þáttunum Naked Attraction á YouTube. Hágæðaefni sem þig langar ekki að sjá en þú getur ekki slitið þig frá!

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan