Bæjarins Bestu - Einar Sigþórsson

 

Nafn: Einar Sigþórsson

Vinnustaður: Ráðhúsið - Þjónustu- og skipulagssvið - Skipulagssvið – Verkefnastjóri Skipulagsmála.

Hver eru helstu verkefnin í þínu starfi:

Staða verkefnastjóra skipulagsmála er nú ansi fjölbreytt starf, og kannski öllu fjölbreyttara en ég gerði mér grein fyrir. En fyrst og fremst sé ég um að öll skipulagsmál sem okkur berast fari rétta leið í kerfinu. Ég er sjálfur enn að læra allt stjórnsýslu-lingóið en það kemur hægt og bítandi og það eru enn sem komið er engin mál sem hafa farið alveg í skrúfuna.

Annars er ég bara með nefið í flest öllu sem er að gerjast í skipulagsmálum á Akureyri og þar sem að ég er menntaður arkitekt þá hefur Pétur áttað sig á því að hann getur nýtt mig á annan hátt en gengur og gerist hjá hinu almenna skipulagsnördi. Pétur nýtir því allar vökustundir til að „plotta“ eitthvað stórt sem hann kastar svo í mig og lætur mig vinna áfram út frá minni sérkunnáttu.

Eru einhver spennandi verkefni eða nýjungar á þínum vinnustað eða e-ð áhugavert sem þú getur sagt okkur um vinnustaðinn?

Það er nú eiginlega allt spennandi þegar kemur að skipulags- og byggingarmálum ef maður bara lítur á það með réttum gleraugum. Ég er alveg rosalega mikið nörd í þessum efnum og finnst því flest allt sem ég geri mjög spennandi. En bara eiginlega í þessum töluðu orðum erum við byrja vinnu við skipulagningu Akureyrarvallar og það er verkefni sem mér finnst alveg rosalega spennandi. Þetta er líklega einn mest umtalaði reitur Akureyrar svo það skiptir í raun engu máli hvað eða hversu góðar hugmyndir munu koma fram, það verða mjög háværar gagnrýnisraddir. Svona verkefni finnast mér rosalega skemmtileg og ég hlakka mikið til að hefja vinnuna af alvöru og ég vona bara að Akureyringar muni líta á verkefnið með opnum hug og jákvæðni svo að við getum gert svæðið að nýrri perlu Akureyrar sem mun gleðja íbúa jafnt sem gesti.

Hver er skemmtilegasta hefðin á þínum vinnustað?

Ég veit nú ekki hvort að þetta teljist til hefðar en ég verð að setja vikulegan fund með umhverfis- og mannvirkjasviði hérna, og þá sérstaklega þegar bæði Pétur og Guðríður eru til staðar á fundinum. Það myndast oftar en ekki líflegar umræður um málefni líðandi stundar sem nánast undantekningarlaust hafa ekkert með fundarliðina að gera og Jónas Vald hefur ekkert lítið gaman af því.

Aðeins um þig?

Skírður Einar Sigþórsson, fæddur og uppalinn í 603 og harður eftir því. Þessi sterki bakgrunnur gerir það svo að verkum að ég tel mig í miklum metum á skipulags- og byggingarsviði þar sem að þetta eru að lang stærstum hluta til aðkomumenn og eiga því ekki inni „credit“ hjá Akureyringum, þar sem ég get svo stigið upp og getið hverra manna ég er.

Að minna mikilvægum efnum, þá er ég kvæntur, á tvö börn og bý í verkamannaíbúð í Skarðshlíðinni eins og sönnum þorpara sæmir. Tvítugur söðlaði ég svo um og fluttist til meginlandsins þar sem að fyrrum nýlenduherrar okkar, Danir, tóku mér fagnandi. Ég var búsettur í Danmörku frá 2009-2023, nam þar arkitektúr við Arkitektarskólann í Árósum og starfaði svo innan geirans í Danmörku allt þar til í fyrra, þegar Akureyri varð fyrir því láni að endurheimta eitt af brottfluttum afkvæmum sínum.

Hvað finnst þér skemmtilegast að gera í frítímanum þínum?

Ég verð nú eiginlega bara að viðurkenna að ég er bara að reyna að finna út úr því hérna heima. Er kominn með gríðarlegan áhuga á skíðum aftur eftir að hafa ekki stundað það sport í 20 ár og svo finnst mér voðalega gott að slappa af fyrir framan sjónvarpið eða að hlusta á tónlist. Stærstur hluti frítímanns fer nú samt bara í það að vera með fjölskyldunni og tíminn fer þá oftast í eitthvað sem börnunum langar að gera. Maður þarf eiginlega að venjast íslenskum aðstæðum aftur því það er ekki bara hægt að hanga úti með börnunum og gera ekkert eins í Danmörku því þá er maður bara ískaldur og/eða blautur.

Hvort finnst þér skemmtilegra að elda eða baka?

Ég er eiginlega bara jafn hrifinn af því að elda og baka. En það er voðalega oft svoleiðis hjá mér og konunni að hún sjái um matinn og ég um baksturinn. Ég er mikill sætabrauðsdrengur og eftirrétturinn er klárlega mín uppáhalds máltíð.

Áttu einhverja uppáhalds uppskrift sem þú vilt deila með okkur? (væri gaman ef það fylgir mynd).

Sko það er frekar vandræðalegt en ég á hvorki uppskriftina né myndir af snúðunum sem bakaðir eru eftir uppskriftinni. En Harpa frænka mín hélt, ásamt Þórunni tengdasystur sinni, úti vegan uppskriftarsíðu sem hét Dass af Salti. Þar var uppskrift af vegan kanilsnúðum sem var eitthvað annað. Ég ætla því að reyna að fá uppskriftina frá Hörpu svo að samstarfsfólk mitt geti farið að koma með heimabakaða snúða í vinnuna handa mér. Ég er með ofnæmi fyrir mjólkurpróteini og þá koma svona vegan síður sér rosalega vel.

Hvaða bók ertu að lesa, eða hvaða þætti ertu að horfa á?

Ég verð nú ekki vinsæll þegar fólk les þetta en ég er gríðarlega áhugasamur um notkun hugvíkkandi efna í meðferð við andlegum kvillum og er nýbúinn að hlusta á hlaðvörp um efnið og mæli eindregið með :

  1. Science Vs – MDMA : Can ecstasy cure your agony
  2. Science Vs – Magic Mushrooms : Your favorite drugs episode!
  3. People I (mostly) admire – 115. The future of therapy is psychedelic

Ég mæli eindregið með þessum hlaðvarpsþáttum því að staðreyndirnar sem fram koma, og eru settar fram af fremstu vísindamönnum í heiminum og ekki rave-elskandi hippum, eru alveg magnaðar og lýsa algjörlega nýju ljósi á þessi efni sem hafa kannski verið flokkuð svolítið ranglega í langan tíma.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan