Bæjarins Bestu - Álfey Sól Arnfjörð Haraldsdóttir

Nafn: Álfey Sól Haraldsdóttir

Vinnustaður: Leikskólinn Klappir

Hver eru helstu verkefnin í þínu starfi:

Helstu verkefnin í mínu starfi snúa að menntun, uppeldi og umönnun barna og meginnámsleið þeirra sem er leikur en ég vinn í dag með börnum á aldrinum 4-6 ára á elstu deild leikskólans. Verkefni leikskóla eru svo fjölbreytt og mörg (og skemmtileg!) að það er erfitt að koma þeim öllum í orð. Ég vinn að hluta til sem starfsmaður deildar og að hluta sem stuðningsstarfsmaður og heyri þar undir sérkennsluteymi Klappa. Ásamt þessu sit ég í Réttindateymi Klappa en þar koma fulltrúar saman af hverri deild og leiða innleiðingu Barnasáttmálans í skólanum.

 

Eru einhver spennandi verkefni eða nýjungar á þínum vinnustað eða e-ð áhugavert sem þú getur sagt okkur um vinnustaðinn?

Við á leikskólalanum Klöppum erum að vinna að því að verða Réttindaskóli UNICEF um þessar mundir en sú vinna snýr að því að innleiða Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna inn í starfið í skólanum og fræða börn, starfsfólk og foreldra um réttindi barna. Verkefnið er virkilega spennandi og auðvitað krefjandi á köflum en við höfum unnið hörðum höndum að þessari innleiðingu og fáum vonandi viðurkenningu sem Réttindaskóli UNICEF áður en þessu skólaári lýkur. Til viðbótar langar mig að deila áhugaverðri staðreynd um Klappir en það er hægt að ferðast milli hæða á þrjá vegu: með stiga, lyftu eða rennibraut!

Hver er skemmtilegasta hefðin á þínum vinnustað?

Á Klöppum má finna margar skemmtilegar hefðir en mánaðarlegt kökukaffi er hefð sem allir gleðjast yfir, árlegt hreyfibingó í boði heilsueflingarnefndar er önnur skemmtileg hefð og jólaleynivinaleikurinn í boði skemmtinefndar. En leikritið Karíus og Baktus í tannverndarviku, þar sem starfsfólk fer í hlutverk þeirra, er árleg hefð í skólanum og sú sem ég held hvað mest upp á.

Aðeins um þig? Ég er 25 ára mastersnemi hér í Háskólanum á Akureyri, komin langleiðina í gegnum kennaranám með áherslu á leikskólakennarafræði.

Hvað finnst þér skemmtilegast að gera í frítímanum þínum?

Verja tíma með fjölskyldu og vinum eða fara upp í sumarbústað (helst með þeim samt).

Hvort finnst þér skemmtilegra að elda eða baka?

Elda! Ég held alltaf að ég geti bætt allar bökunaruppskriftir með smá extra af hinu eða þessu en það skilar aldrei tilætluðum árangri (skrítið).

Áttu einhverja uppáhalds uppskrift sem þú vilt deila með okkur? 

Ég á reyndar eina pönnukökuuppskrift sem ég held mikið upp á:

  • Hálfur bolli hveiti
  • Hálfur bolli léttmjólk
  • Tvö stór egg
  • 2 msk sykur
  • 1 tsk vanilludropar
  • 1/5 tsk salt

Öllu blandað saman í blandara í 20 sek, deigið síðan lagt til hliðar í 20-25 mín. Miðlungsstærð af eldföstu móti sett inn í kaldan ofn, ofninn stilltur á 220 gráður og forhitaður á meðan deigið hvílir. Þegar ofninn hefur náð hita og 20-25 mín liðnar er:

  • 2 msk ósaltað smjör

látið í heita formið, bráðið og deiginu síðan helt út á. Þetta er síðan bakað í 15-20 mín eða þar til pönnukakan hefur tekið á sig lit. Borið fram með ávöxtum og hunangi eða jafnvel flórsykri/hnetusmjöri/súkkulaði/sírópi - Njótið!

Hvaða bók ertu að lesa, eða hvaða þætti ertu að horfa á?

Ég er að horfa á nýjustu seríu af Married at first sight Australia þessa dagana, raunveruleika sjónvarp af bestu gerð.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan