Bæjarins Bestu - Karen Nóadóttir

Mynd af Karen Nóadóttur

Nafn: Karen Nóadóttir

Vinnustaður: Íþróttahöllin, Glerárgata 26 eða þar sem tölvan mín er.

Hver eru helstu verkefnin í þínu starfi: Ég held utan um verkefnið Barnvænt sveitarfélag sem er alþjóðlegt verkefni frá UNICEF og snýr að því að innleiða Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna inn í alla stjórnsýslu og starfsemi sveitarfélagsins, með það að markmiði að bæta sífellt gæði þjónustu við börn. Verkefnið snýst um að fræða stjórnkerfi sveitarfélagsins um réttindi barna en einnig að kenna börnum sjálfum að þekkja réttindi sín. Þá er ég einnig umsjónarmaður Ungmennaráðs Akureyrarbæjar og held, ásamt fríðu föruneyti, utan um fundi, samskipti út á við og önnur verkefni er snúa að ráðinu.

Eru einhver spennandi verkefni eða nýjungar á þínum vinnustað eða e-ð áhugavert sem þú getur sagt okkur um vinnustaðinn? Það er sjaldan dauð stund á vinnustaðnum. Núna á næstunni standa yfir flutningar í Rósenborg og verður það bæði spennandi og áhugavert að sjá hvernig kamelljónin aðlaga sig að nýjum aðstæðum.

Hver er skemmtilegasta hefðin á þínum vinnustað? Þrjár heilagar hefðir eru í Höllinni: Lukkuhjólið á miðvikudögum, föstudagsmorgunkaffið þar sem starfsmenn skiptast á að koma með veitingar, ýmist úr eigin eldhúsi eða eru „styrktir“ af bakaríum bæjarins og svo sú síðasta, en sennilega sú mikilvægasta, maður keyrir aldrei beint inn í stæðin næst húsi heldur keyrir upp fyrir og leggur eða bakkar í stæðið.

Aðeins um þig? Ég er í stanslausri vinnu við að ala sjálfa mig upp og reyni að gera það brosandi.

Hvað finnst þér skemmtilegast að gera í frítímanum þínum? Ég ver megninu af honum með strákunum mínum tveimur (þremur) sem er það skemmtilegasta og mest þreytandi dæmi sem ég veit. Ég elska að lesa og þá bækur og efni sem bæta við þekkingu á mínu áhugasviði frekar en skáldsögur og reyni að troða því inn þar sem ég get. Ég hef alltaf verið mjög virk í hreyfingu og er að reyna að koma mér aftur upp æfingarútínu eftir að það hafði dottið langt niður á forgangslistanum, ég skráði mig því á hlaupanámskeið Eyrarskokks og ef þið sjáið mig ekki hlaupandi um götur bæjarins, þá er það sennilega vegna þess að ég hljóp svo hratt framhjá ykkur.

Hvort finnst þér skemmtilegra að elda eða baka? Baka en gef mér of sjaldan tíma í það.

Áttu einhverja uppáhalds uppskrift sem þú vilt deila með okkur? Á mínu heimili hefur það verið nánast órjúfanlegur hluti af helgarhefð að hafa pönnukökur í morgunmat annan daginn og ná að nýta líka tækfærið til að skapa smá minningar með börnunum. Ég er yfirleitt með einn aðstoðarmann og nýtum við það sem er til hverju sinni. Uppskriftin er ekki heilög en grunnurinn oftast svipaður:

1 banani – helst aðeins lifaður

2-3 egg

1-2 dl. Tröllahafrar

Hampfræ – dassað

Chiafræ – dassað

Kókosmjöl – dassað

1-2 msk Brædd kókosolía

Stundum smá grísk jógúrt eða hafraskyr (þar sem annar gormurinn er með mjólkurofnæmi)

Öllu skutlað saman í blandara

Svo stundum setjum við spelt út í deigið eftir blöndun ef deigið er mjög fljótandi.

Litlar dúllur steiktar á pönnunni upp úr kókosolíu.

Borið fram með grófu hnetusmjöri, einhvers konar súkkulaði, grískri jógúrt/hreinu skyri og þeim ávöxtum sem hugurinn girnist eða ísskápurinn/frystirinn hefur að geyma. Rjúkandi bolli á hliðarlínunni og allir glaðir.

Hvaða bók ertu að lesa, eða hvaða þætti ertu að horfa á? Ég er niðursokkin í bók eftir eitt af átrúnaðargoðum mínum, Gabor Maté, The myth of normal: Trauma, Illness, And Healing In A Toxic Culture, er svo líka með í eyrunum hljóðbókarútgáfu Hold on to Your Kids: Why Parents Need to Matter More Than Peers eftir Gordon Neufeld og Gabor Maté. Svo var ég að ljúka við þættina Sex life á Netflix og byrja á nýjustu seríunni af Working moms, allt þetta fær fullt af stjörnum frá mér.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan