Átak til að fjölga tímabundnum störfum fyrir námsmenn og atvinnuleitendur í sumar

Ríkisstjórnin hefur samþykkt tillögu Guðbjarts Hannessonar velferðarráðherra um átak til að fjölga tímabundnum störfum fyrir námsmenn og atvinnuleitendur Í sumar. Áætlað er að verja allt að 370 milljónum króna til verkefnisins. Vinnumálastofnun mun stýra átakinu sem efnt er til í samvinnu við stofnanir ríkisins og sveitarfélög.

Akureyrarbær er eitt þeirra sveitarfélaga sem tekur þátt í verkefninu og mun  bjóða atvinnuleitendum og námsmönnum með lögheimili á Akureyri á aldrinum 18-25 ára að sækja um sumarstörf í 8 vikur. Nánari upplýsingar um störfin er að finna á vef Akureyrarbæjar þar sem sótt er um. Í umsókn þarf að koma fram hver bótaréttur viðkomandi atvinnuleitanda er. Ef um námsmann í atvinnuleit ræðir gildir sú regla að hann sé skráður í nám í haust og sé því á milli missera eða skólastiga. Skila þarf inn skriflegri staðfestingu þess efnis.

Frekari upplýsingar um atvinnuátakið eru veittar hjá starfsmannaþjónustu Akureyrarbæjar í síma 460-1060.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan